Mögnuð nánd við Gígjökul

Dökkur mökkur stígur upp af eldstöðinni í Eyjafjallajökli og liggur …
Dökkur mökkur stígur upp af eldstöðinni í Eyjafjallajökli og liggur til austurs. Hvítu gufurnar eru yfir hrauninu sem rennur undir Gígjökli. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er algjörlega magnað að vera hérna, og eins að aka hér inneftir,“ sagði Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Hann fór inn að Gígjökli í gær ásamt fleirum frá Ferðafélaginu og Vegagerðinni til að kanna aðstæður í Þórsmörk og ástand vegarins.

„Að sitja hér og horfa á átökin er einfaldlega gjörsamlega magnað. Það eru forréttindi okkar Íslendinga að búa hér á þessari ævintýraeyju. Við höfum setið hér í klukkutíma dolfallnir yfir náttúrufegurðinni og þessum gríðarlegu átökum.“

Páll telur að eldgosið þurfi ekki að hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustu. Þvert á móti eigi að gera fólki kleift að skoða eldgosið. „Það á að streyma til okkar fólkið til að fá að fylgjast með slíkum náttúruundrum,“ sagði Páll. Hann segir að Ferðafélagið og ferðaþjónustuaðilar vilji að opnað verði fyrir aðgang að Gígjökli.

Almannavarnir ítrekuðu síðdegis í gær að lokanir sem tilkynntar voru 27. apríl sl. væru enn í fullu gildi og svæðið lokað af öryggisástæðum. Ekki væri fyllilega vitað hvaða áhrif gosið hefði haft á jökulinn. Sprungur gætu hafa myndast og m.a. er vitað um 50 metra djúpa vatnsrás á sunnanverðum jöklinum. Sjá nánar um eldgosið í Eyjafjallajökli, áhrif þess og afleiðingar, í Morgunblaðinu í dag.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »