Hugnast ekki aðkoma Björgólfs Thors

Margrét Tryggvadóttir
Margrét Tryggvadóttir mbl.is/Frikki

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, leggur til að frumvarpi til laga um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ  verði vísað til ríkisstjórnarinnar og unnið frekar í málinu þar til viðunandi lausn sé í sjónmáli.

Í nefndaráliti minnihlutans, sem Margrét stendur ein að, segir hún að þátttaka Björgólfs Thors Björgólfssonar, eiganda Novators, í verkefninu standi verulega í sér. Bendir hún á af lestri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis megi ráða að veruleg áhætta fylgi því að stunda viðskipti við umræddan aðila. Telur hún að Alþingi verði að taka siðferðislega forustu og leggja línurnar um það með hvaða hætti ásættanlegt sé að viðskipti við fyrri eigendur bankanna fari fram.

Í nefndaráliti sínu gerir Margrét að umtalsefni bréf Björgólfs Thors til Alþingis og þingmanna þar sem hann segist munu afsala sér þeim ríkisstyrk sem felist í lögfestingu fjárfestingarsamningsins og að við sölu Verne Holdings ehf. eða greiðslu arðs til sín frá félaginu muni hann greiða til ríkisins þau verðmæti sem felast í gerð samningsins við lögfestingu, að teknu tilliti til eignarhlutar hans í félaginu og greiddra skatta. Auk þess sem hann sem fjárfestir muni ekki njóta fjárhagslegs ávinnings af fyrirgreiðslu ríkisins. Hann muni ekki heldur auka hlut sinn í félaginu og ekki taka leiðandi hlutverk við stjórn þess.

„Ekki er hægt að búast við því að jafnstór fjárfesting og gagnaver Verne Holdings í Reykjanesbæ skili arði í byrjun og eðlilegt að ekki komi til arðgreiðslna fyrr en eftir þau 10 ár sem fjárfestingarsamningsins nýtur. Því má gera ráð fyrir að ekki komi til neinna arðgreiðslna fyrr en eftir að því tímabili lýkur,“ segir Margrét í áliti sínu.

Bendir hún á að hún hafi spurt fulltrúa iðnaðarráðuneytisins hvort yfirlýsing Björgólfs Thors eða sérákvæði um sama mál í fjárfestingarsamningnum hefði einhver áhrif eftir þau 10 ár sem fjárfestingarsamningurinn er í gildi. „Taldi fulltrúi ráðuneytisins svo ekki vera. Novator og Björgólfur Thor munu því njóta allra arðgreiðslna sem koma til eftir þessi 10 ár sem samningurinn gildir og sömuleiðis alls söluhagnaðar ef eignarhlutur þeirra í Verne Holdings verður seldur að þeim tíma liðnum,“ skrifar Margrét og tekur fram að hún sjái því ekki hverju nákvæmlega Björgólfur Thor hyggist afsala sér.

„Á vettvangi nefndarinnar hefur því verið haldið fram að verkefnið muni gufa upp ef Novator taki ekki þátt í því. Hinn aðilinn að samningnum er fyrirtækið Teha Investments S.a.r.l. og hefur það lagt jafnmikið fjármagn í verkefnið og Novator,“ skrifar Margrét og tekur fram að hún eigi erfitt með að trúa því að Teha Invest sé tilbúið að tapa þeim fjármunum og leggja árar í bát.

Bendir Margrét á að nýr fjárfestir í verkefninu sé Wellcome Trust en skilyrði fyrir aðkomu sjóðsins mun vera fjárfestingarsamningurinn. Segist hún ekki sjá hvaða vandkvæðum það væri bundið að Wellcome Trust taki yfir eignarhlut Novators í Verne Holdings, sé það vilji þeirra að taka þátt í verkefninu og Novator ætli ekki að hagnast á viðskiptunum.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka