Segist engin loforð hafa gefið

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurðist fyrir um launakjör seðlabankastjóra og þann sérsamning sem virðist hafa verið gerður við hann þess efnis að laun hans myndu ekki skerðast við launalækkun forstjóra ríkisins. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Einnig vildi hann fá að vita hvenær ákveðið hafi verið sá sem nú gegnir seðlabankastjórastöðunni skyldi ráðinn. Vísaði hann til þess að seðlabankastjóri virtist hafa beitt sér með mjög svo pólitískum hætti síðan hann var ráðinn. Jafnframt spurðist hann fyrir hversu lengi ráða ætti inn fólk tímabundið í ráðuneytin án auglýsingar.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði rangt að núverandi seðlabankastjóra hafi verið gefið loforð þess efnis að laun hans myndi ekki lækka. Fór hún yfir ráðningarferlið, þ.e. að auglýst hafi verið í stöðuna og sérstök nefnd hafi farið yfir umsóknir. Hvað ráðningar í ráðuneytin varðaði sagði Jóhann nefnd að störfum sem fara ætti yfir þessi mál.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði allar heimildir fjölmiðla benda til loforðið um launakjör seðlabankastjóra hafi verið gefið af forsætisráðuneytinu. „Hvenær var loforðið gefið? Hver gaf það? Í umboði hvers var það gefið? Hver hafði vitneskju um það? Hafði formaður bankaráðs samráð við forsætis- og fjármálaráðherra áður en tillaga hans var borin upp?“ spurði Sigurður.

Svar Jóhönnu við síðustu spurningu Sigurðar var nei, slíkt samráð hafi verið ekkert. Ítrekaði hún að hún hefði aldrei gefið neitt loforð um launakjör seðlabankastjóra. Minnti hún á að seðlabankastjóri hefði nú gefið það út að hann vildi ekki taka umræddri launahækkun auk þess sem formaður bankaráðs hafi sagt að tillagan verði dregin til baka. „Auðvitað er það svo að það á að fara eftir ákvörðun kjararáðs í þessum efnum.“

Sigurður Kári kvartaði undan því að svör Jóhönnu væru óskýr. Benti hann á að sérstakur trúnaðarmaður forsætisráðherra í bankaráði, þ.e. Lára V. Júlíusdóttir formaður ráðsins, hafi lagt fram tillöguna og því væri ekki hægt að trúa öðru en því að ráðherra hafi haft fulla vitneskju um það.

Jóhanna sagðist ekki vita hversu skýrt hún þyrfti að tala til þess að orð hennar skildust. Ítrekaði hún að hún hefði ekki komið að launamálum seðlabankastjóra með neinum hætti. Sagði hún það að hækka laun hans úr takt við þá stefnu sem ríkisstjórnin hefði markað í launamálum starfsmanna ríkisins.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði það grafalvarlegt mál ef slíkt loforð hefði verið gefið án vitneskju forsætisráðherra og kallaði eftir því að kafað væri til botns í því máli, enda grafalvarleg staða sem upp sé komin.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert