Bændur áhyggjufullir útaf gosinu

Gosmökkurinn yfir Mýrdalnum í dag.
Gosmökkurinn yfir Mýrdalnum í dag. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Ég hef verulegar áhyggjur af sumrinu og fóðuröflun fyrir veturinn. Hér á mínu svæði er mikil aska og ekki sér fyrir endann á þessari atburðarás náttúrunnar," segir Kristbjörg Hilmarsdóttir, bóndi á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri, sem hvetur bændur annars staðar á landinu, eða öllum öskufríum svæðum, til að afla alls þess fóðurs sem kostur er á. Þeir bændur sem búi á öskusvæðunum þurfi án efa á ótrúlega miklu aðkeyptu fóðri að halda. 

Kristbjörg segir mikinn rykmökk hafa verið að sjá á Mýrdalssandi í dag og töluvert mikið ryk sé í Álftaveri. Segja megi að þar sé grímuveður; þurrt og góður blástur.

„Fari svo vel að bændur hér fái styrki frá Bjargráðasjóði til fóðurkaupa þarf að vera til fóður til að kaupa. Ef ég legði allt í endurræktun á mínum túnum og léti mig dreyma um að ég næði fullnægjandi árangri og nægum forða fyrir næsta ár, væri ég að taka mikla áhættu bæði fjárhagslega og aðallega væri ég ekki með nægilega hreint fóður fyrir búpeninginn. Ef gosið heldur áfram má búast við öskufalli með reglulegu millibili í fóðrið, kannski í 1-2 ár," segir Kristbjörg og vonast til að það sé full mikil svartsýni. Hins vegar sé mikil óvissa framundan.

Má ekki verða fóðurskortur 

„Mest allt öskufallssvæðið er í einu sauðfjársjúkdómavarnahólfi og því er einnig vandi að kaupa fóður, með tilliti til þeirra reglna sem gilda um sauðfjársjúkdómavarnir," segir hún ennfremur og hvetur alla sem koma að uppbyggingarstarfi í landbúnaði að bregðast skjótt við og láta ekki verða fóðurskort á Íslandi á næstu árum.

,,Með góðu skipulagi og sterkum vilja munum við byggja upp að nýju. Tíminn mun vinna með okkur því þegar frá líður og gosið hættir verður þessi aska okkur nýr jarðvegur. Erfiðleikatímar eru nú hjá mörgum Íslendingum, en ef við stöndum saman, þá komumst við í gegnum þetta allt," segir Kristbjörg að endingu.

mbl.is