Gosdrunur norður í land

Gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli hefur verið af svipuðum styrk og magni …
Gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli hefur verið af svipuðum styrk og magni síðustu sólarhringa. mbl.is/Helgi Bjarnason

Gosórói er áfram stöðugur í Eyjafjallajökli og hefur verið svipaður síðustu þrjá sólarhringja, samkvæmt nýrri stöðuskýrslu Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar HÍ. Miðað við síðustu sjö daga fer framleiðsla gosefna dvínandi.

Gosvirknin er sögð ganga í bylgjum og búast má við áframhaldandi sveiflum í virkni. Vísindamenn telja sem fyrr ekkert benda til þess að gosinu sé að ljúka. Gosmökkurinn er að jafnaði í 4-5 km hæð, samkvæmt veðurratsjá, en fer þó stundum upp í 6 km hæð. Stefnir mökkurinn til suðausturs en vindáttir eru þó breytilegar við yfirborð og austlægar.

Gjóskufall er nú vestar en áður, var á Skógum í morgun og hófst á Þorvaldseyri um kl. 8. Að sögn ábúenda þar færist gjóskufallið vestar og askan er sögð svört.

Drunur norður í Húnavatnssýslur 

Eldingar hafa ekki mælst síðasta sólarhringinn en gosdrunur frá gosinu hafa heyrst í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu, í nærri 200 km fjarlægð, og einnig í Borgarfirði og Vestmannaeyjum. Til viðbótar við þessa skýrslu hefur mbl.is fengið ábendingar frá fólki í Dölunum sem segist hafa heyrt drunur frá gosinu.

Sjö jarðskjálftar, á bilinu 1,5- 2 stig, hafa mælst við gosstöðvarnar síðasta sólarhringinn. Dægursveiflur eru í vatnsvatni og hita en engir flóðtappar myndast.

mbl.is

Bloggað um fréttina