Hlaut heiðursverðlaun Orkubóndans

Ólafur Eggertsson , Þorvaldseyri
Ólafur Eggertsson , Þorvaldseyri mbl.is/Ómar Óskarsson

Ólafur Eggertsson bóndi frá Þorvaldseyri hlaut heiðursverðlaun Orkubóndans 2010, sem veitt voru í dag til að heiðra frumkvöðla á sviði endurnýjanlegrar orku.

Ólafur hlýtur verðlaunin fyrir brautryðjendastarf í ræktun repju og störf að virkjunarmálum á sviði vatnsorku og jarðhita. Ólafur stendur nú frammi fyrir náttúruöflunum en þrátt fyrir hamfarirnar í kjölfar eldgoss í Eyjafjallajökli er hann staðráðinn í að halda áfram repjuræktinni sem gefur bændum mikla möguleika í formi olíu, fóðurmjöls og hálms. Hann hefur náð framúrskarandi árangri í ræktun á orkujurtinni repju þar sem uppskeran á hans búi var 30% meiri en á viðmiðunarstöðum í Norður-Evrópu og Norðurlöndum., að því er segir í tilkynningu. 

Eiður Jónsson frá Árteigi fékk sérstök smíða- og hönnunarverðlaun fyrir framlag sitt til virkjunarmála en fjöldi virkjana sem hann og faðir hans hafa komið að eru nú eitt hundrað talsins víða um landið auk þriggja virkjana í Grænlandi og einnar í Færeyjum.

Virkjaði bæjarlækinni að Jaðri

Þá hlaut Bjarni Malmquist Jónsson 23 ára rafiðnfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík verðlaun sem bjartasta vonin, en síðast liðið sumar virkjaði hann bæjarlækinn á bújörð foreldra sinna að Jaðri í Suðursveit.

Smávirkjanir í sumarbústaðarlandinu, repjuræktun og orkulindir framtíðarinnar voru á meðal viðfangsefna á námskeiðinu Orkubóndanum sem hefur verið haldið á níu stöðum um landið í vetur. 80 manns sóttu lokanámskeiðið í Reykjavík í dag og þá hafa alls hátt í 800 manns verið þátttakendur í Orkubóndanum.

Í kjölfar námskeiðanna hafa fjölmargir hafið undirbúning að virkjunarframkvæmdum, stórum og smáum. Notkun varmadæla er í mikilli aukningu og hafa verið settar upp um 40 nýjar varmadælur í vetur. Þá hefur verið stofnað til klasasamstarfs um verðmæt efni úr lífrænum úrgangi,  VeLÚR, í samvinnu aðila á Norð-Vesturlandi og Suðurlandi.

Á Vestfjörðum hefur verið stofnað sprotafyrirtækið VesturOrka um virkjun sjávarfalla í Þorskafirði og fleiri verkefni. Þá hafa Nýsköpunarmiðstöð, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Orkubú Vestfjarða sameinast um að fullgera litla seltuvirkjun sem opna á við Mjólká á tveggja alda ártíð Jóns Sigurðssonar þann 17. júní 2011.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Orkustofnun, ÍSOR, Mannvit, Verkís og iðnaðarráðuneytið stóðu að verðlaununum í tengslum við námskeiðið Orkubóndann, sem haldið hefur verið á níu stöðum um landið í vetur, segir ennfremur í tilkynningu. 

Repjuakur í blóma á Þorvaldseyri.
Repjuakur í blóma á Þorvaldseyri. Ólafur Eggertsson
Frá verðlaunaafhendingunni í dag
Frá verðlaunaafhendingunni í dag
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert