Segist engin brot hafa framið

Sigurður Einarsson er eftirlýstur á vef Interpol.
Sigurður Einarsson er eftirlýstur á vef Interpol.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segist í samtali við sænskt viðskiptablað engin lögbrot hafa framið í tengslum við rekstur bankans. Sigurður segist hafa reynt að afla upplýsinga um málið gegnum lögmann sinn „en íslensk stjórnvöld svara ekki þegar við hringjum."

Sigurður segist í samtali við vef Dagens Industri ekki skilja hvers vegna embætti sérstaks saksóknara á Íslandi hafi beðið Interpol um að lýsa eftir sér. Hann segist hafa lesið á vef Daily Telegraph að ástæðan sé sú að hann hafi ekki svarað spurningum íslenskra stjórnvalda.

Sigurður býr í Chelsea í Lundúnum og segir við di.se, að engin leynd hvíli yfir heimilisfestu hans. Þá segist hann ekki vita hvaða brot hann er grunaður um að hafa framið en hann hafi ekki aðhafst neitt ólöglegt meðan hann starfaði hjá Kaupþingi og ekkert skjalafals eða bókhaldsbrot hafi átt sér stað.

„Eins og þú veist hafa hlutir breyst mjög dramatískt á Íslandi," segir Sigurður og bætir við, að sakamálarannsóknin handtökuskipunin gegnum Interpol sé áróðursbragð sem ætlað sé að skapa fyrirsagnir í fjölmiðlum. Mikil þörf hafi myndast fyrir að finna blóraböggla vegna fjármálakreppunnar. 

Sigurður segist hafa boðist til að fara til Íslands og taka þátt í yfirheyrslum svo framarlega sem hann hafi tryggingu fyrir því að hann fái að fara aftur til Bretlands þar sem hann býr ásamt fjölskyldu sinni.

Sigurður Einarsson
Sigurður Einarsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert