Askan ógnar flugumferð

Búast má við mikilli röskun á flugumferð í Evrópu á morgun, en öskuský frá eldgosinu í Eyjafjallajökli er á leið til Bretlands. Flugmálayfirvöld hafa tilkynnt að líklegt sé að flugvöllum þar verði lokað á morgun og fram á þriðjudag.

Mökkurinn frá gosinu hefur náð 6 km hæð að jafnaði í dag og í gær. Það þýðir að askan berst hátt upp í háloftin. Askan er því í svipaðri flughæð og flugvélar i alþjóðaflugi eru í.

Mökkurinn hefur sést vel frá Reykjavík í dag, sem er í um 140 km fjarlægð frá eldgosinu. Aðstæður til að sjá mökkinn frá höfuðborgarsvæðinu hafa líklega aldrei verið betri frá því gosið hófst.

Öskuský sem bárust til meginlands Evrópu stöðvuðu flugumferð í stórum hluta álfunnar um miðjan apríl, stuttu eftir að gosið hófst. Þetta leiddi til gríðarlegs fjártjóns fyrir flugfélögin og mikilla óþæginda fyrir fjölda farþega út um allan heim.

mbl.is

Bloggað um fréttina