Vigdís opnaði Vatnsmýrarhátíðina

Það er margt að sjá á Vatnsmýrarhátíðinni.
Það er margt að sjá á Vatnsmýrarhátíðinni. mbl.is/Golli

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, setti í dag Vatnsmýrarhátíðina, hátíðin er tileinkuð vísindum og leik, umhverfi og náttúru, börnum landsins og barnamenningu.

Þúsundir barna og fjölskyldur þeirra hafa nú heimsótt Tilraunalandið sem opnaði 9. apríl síðastliðinn og hefur hlotið góðar viðtökur. Sýningin dreifir nú rækilega úr sér og verður utandyra fram í september. Tilraunalandið er sem fyrr ókeypis og öllum opið. Einnig verða þrautir, tæki og tól á víð og dreif á lóð Norræna hússins en þau tilheyra farandsýningu sem fer um landið í sumar til að sem flestir fái að kynnast Tilraunalandinu.

„Skjólgóði sandkassinn“, sem er gjöf frá Stavanger í Noregi, var tekin formlega í notkun á hátíðinni. Þetta er án efa stærsti manngerði sandkassinn á höfuðborgarsvæðinu sem jafnframt er listrænn skúlptúr er þjónar í senn hlutverki sólúrs og vita.


Friðlandið í Vatnsmýrinni er einstakt. Þar getur fólk notið villtrar náttúru og fuglalífs í miðri Reykjavíkurborg. Með endurbótum á friðlandinu getur það þjónað hlutverki sínu enn betur sem griðastaður fugla, vatnalífvera og gróðurs og stefna Háskóli Íslands, Norræna húsið og Reykjavíkurborg að sameiginleg átaki í slíkum endurbótum.

Vigdís Finnbogadóttir setti hátíðina.
Vigdís Finnbogadóttir setti hátíðina. mbl.is/Golli
mbl.is