Allt orðið svart aftur

Slökkvilið þreif við bæi í Mýrdal í gær.
Slökkvilið þreif við bæi í Mýrdal í gær. mynd/Jónas Erlendsson

„Þetta fór fyrir lítið. Það er hálf dapurlegt fyrst fólk sem var komið langt að var að leggja á sig alla þessa vinnu, að fá ekki að njóta þess í einn dag,“ sagði Jóhanna Sólrún Jónsdóttir, bóndi á Nykhóli í Mýrdal, en aska hefur fallið þar í morgun. Í gær voru sjálfboðaliðar að þrífa við bæinn.

Aska hefur fallið á bæi í Mýrdal í morgun. Jóhanna segir að öskulagið sé líklega um hálfu sentimetri. Í gær komu sjálfboðaliðar og þrifu íbúðarhúsið á Nykhóli og í kringum húsið. Það liðu hins vegar ekki nema nokkrir klukkutímar þangað til aska tók að falla á ný.

Aska hefur ekki fallið í Vík í morgun, en talið er allt eins líklegt að það gerist þegar líður á daginn.

Um 400 fjár eru á Nykhóli og er mest allt borið. Jóhanna segir að allt féð sé enn á húsi. Hún segir að það sé erfitt að sinna þessu inni. Betra sé þó að gera það frekar en að setja út og smala því aftur inn þegar aska tekur að falla. Það sé mikil vinna að ná fénu aftur inn.

Jóhanna segir samt að þetta gangi ekki öllu lengur að hafa féð inni. Elstu lömbin séu orðin þriggja vikna gömul. Hún óttast ekki að lömb drepist þó þau fari út, en telur að það hafi ekki góð langtímaáhrif á lömbin að vera úti í öskufalli.

Jóhanna segir koma til greina að flytja féð af svæðinu, en hún segir að bændur hafi ekki haft tíma til að huga að slíkum lausnum. Menn hafi verið á kafi í sauðburði og að gefa og vatna kindunum inni.

Þrátt fyrir öskufallið eru tún orðin græn á Nykhóli. Í dag ætluðu bændur þar að bera á tún en Jóhanna segir að það frestist líklega. „Þetta er búið að vera mjög gott vor ef ekki hefði verið þetta eldgos. Vegna gossins er þetta versta vor sem við munum eftir,“ sagði Jóhanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina