Fé flutt frá þremur bæjum

Margvísleg vandamál blasa við bændum á gossvæðunum.
Margvísleg vandamál blasa við bændum á gossvæðunum. Rax / Ragnar Axelsson

Fé verður á morgun flutt frá þremur bæjum undir Eyjafjöllum á svæði í Skaftárhreppi. Flutningur á búfé var ræddur á íbúafundi á Heimalandi í kvöld.

Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna hjá ríkislögreglustjóra, sagði að á fundinum hefði verið rætt um þau verkefni sem blöstu við bændum næstu daga og vikur. Verið væri að finna leiðir til að flytja sauðfé af svæðinu. Talsvert beitarland væri í Skaftárhreppi og þangað yrði fé flutt næstu daga. Það svæði er innan varnargirðinga og því er ekkert því til fyrirstöðu að flytja það aftur til síns heima þegar færi gefst.

Víðir sagði að á fundinum hefði einnig verið rætt um heyöflun í sumar, en fyrirhugað er að koma á fót heybanka sem bændur á svæðinu gætu sótt í. Bjargráðasjóður myndi koma að málinu, en honum er m.a. ætlað að bæta uppskerubrest. Sveitarfélögin ynnu að þessu máli með bændum á svæðinu í samvinnu við Bjargráðasjóð.

Nokkrir þingmenn voru á fundinum og kom fram hjá þeim að frumvarp um breytingar á lögum um Bjargráðasjóð yrði hugsanlega að lögum á morgun, en umræða um frumvarpið fór fram á Alþingi í dag.

Landgræðslustjóri var á fundinum og sagði hann að talsvert stór heiðarlönd yrðu ekki nothæf til beitar í sumar vegna öskufalls.

Víðir sagði að nokkuð þungt hljóð hefði verið í fólki á fundinum enda væru íbúar orðnir langþreyttir á ástandinu. Enginn uppgjafatónn hefði þó verið í fólki. Menn væri ákveðnir í að finna lausnir á þeim verkefnum sem við blöstu. Menn myndu ekki láta neina skriffinnsku þvælast fyrir í þessari vinnu.

Víðir sagði að eitt af því sem þyrfti að gera væri að finna húsnæði fyrir fólk sem vildi komast í hvíld frá öskufallinu. Það væri hins vegar erfitt fyrir fólk að sinna skepnum þegar það þyrfti að keyra langar leiðir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert