78,8% í þjóðkirkjunni

Kirkjugestir í messu í Lágafellskirkju.
Kirkjugestir í messu í Lágafellskirkju. mbl.is/Árni Sæberg

Fullorðin sóknarbörn í þjóðkirkjunni voru186.697 talsins um síðustu áramót eða 78,8% mannfjöldans. Kaþólska kirkjan er næstfjölmennasta trúfélag landsins með 6559 félagsmenn 18 ára og eldri. Utan trúfélaga voru 8483 fullorðnir einstaklingar skráðir 1. janúar 2010, en 15.682 í óskráð trúfélög eða ótilgreint. Tvö ný trúfélög voru skráð á síðasta ári.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagstofunnar. Alls voru 3717 breytingar á trúfélagsaðild skráðar árið 2009. Flestir skráðu sig úr Þjóðkirkjunni, alls 1982. Flestir þeirra létu skrá sig utan trúfélaga, 1066, en allnokkrir í einhvern fríkirkjusafnaðanna þriggja eða 585.

Flestar nýskráningar voru utan trúfélaga árið 2009, alls 1184. Af trúfélögum voru flestar nýskráningar í kaþólsku kirkjuna eða 736. Flestir þeirra voru áður í óskráðu trúfélagi eða ótilgreindu, 672 talsins.

Skráðum trúfélögum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum. Skráð trúfélög utan þjóðkirkju og fríkirkjusafnaða eru nú 27 en voru 10 árið 1990. Tvö ný trúfélög voru skráð árið 2009, Menningarsetur múslima á Íslandi og Kirkja hins upprisna lífs. Í Menningarsetri múslima á Íslandi voru skráðir 146 félagsmenn 18 ára og eldri hinn 1. janúar 2010 en 19 félagsmenn í Kirkju hins upprisna lífs.

Aðild að Þjóðkirkjunni og öðrum trúfélögum sem dóms- og mannréttindaráðuneytið hefur viðurkennt er skráð í þjóðskrá. Ríkissjóður skilar sóknargjaldi til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga ár hvert fyrir hvern einstakling sem náð hefur 16 ára aldri 1. janúar. Miðast fjöldi þeirra viðskráningu þjóðskrár 1. desember ári áður. Gjald vegna einstaklinga sem standa utan trúfélaga eða eru í trúfélagi sem ekki hefur hlotið skráningu 1. desember var afnumið 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert