Vill banna fjárfestingar erlendra aðila í orkufyrirtækjum

Lilja Mósesdóttir og Guðbjartur Hannesson á Alþingi.
Lilja Mósesdóttir og Guðbjartur Hannesson á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, boðaði á Alþingi í dag tillögu um að bannað verði með lögum að erlendir aðilar fjárfesti í  þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum á borð við orkufyrirtæki. Sagði Lilja slíkt bann væri í gildi í Frakklandi og hún myndi sjá til þess að fram kæmi tillaga um að slíkt bann verði innleitt í íslenska löggjöf.

Lilja sagði, að tilskipun Evrópusambandsins um erlendar fjárfestingar væri  of sveigjanleg og leyfði kanadískum auðhringjum með skúffufyrirtæki í Svíþjóð að eignast 98% hlut í þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins. Alþingi átti fyrir löngu að vera búið að innleiða bann á fjárfestingar erlendra aðila í þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum.

Lilja var með þessu að vísa til kaupa kanadíska fyrirtækisins Magma Energy á 52% hlut Geysis Green Energy í HS Orku í gær. Sagði Lilja, að Magma hefði keypt hlutinn á hærra verði en aðrir voru tilbúnir til að geriða. Eigandi Magma hefði jafnframt boðað hækkun orkuverðs.

„Orkuverð mun því hækka verulega á Reykjanesi á svæði þar sem atvinnuleysi er mikið. Nákvæmlega þetta gerðist í skuldakreppunni í Suður-Ameríku. Orkufyrirtæki voru einkavædd vegna þrýstings frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem hefur óbilandi trú á einkavæðingu. Hér á landi bannar AGS ríkisvaldinu að fjárfesta í innviðum samfélagsins nema að sú fjárfesting fari fram í formi einkaframtaks," sagði Lilja.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að holur hljómur væri í málflutningi Lilju sem hefði haft langan tíma til að bregðast við þessari stöðu. Sagði Ragnheiður Elín, að með lögum, sem sett voru 2008, hefði verið tryggt að orkuauðlindir væru ávallt í almannaeigu. Þessi lög væru í gildi þótt það virtist hafa farið fram hjá þingmönnum VG.

„Nú kemur næsta hræðslutaktík, sú að orkuverð hækki vegna þess að þetta sé kanadískur auðhringur," sagði Ragnheiður Elín. Hún sagði, að forstjóri Magma hefði talað um að orkuverð til stóriðju væri of lágt og undir það hlytu þingmenn VG að geta tekið. Jafnframt hefði forstjórinn  sagt að ekki stæði til að hækka orkuverð hjá heimilum á Reykjanesi.

„Mér sem Suðurnesjamanni misbýður þessi hræðsluáróður. Þar að auki er HS Orka með um það bil 10% af raforkumarkaðnum. Ef við Suðurnesjamenn verðum varir við að það hækkar meira hjá okkur þurfum við aðeins að hringja eitt símtal og skipta um raforkuveitenda," sagði Ragnheiður Elín.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sagði, að auðvitað hefði fyrir löngu átt að vera búið að banna útlendingum að eignast hlut í þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum eins og HS Orku.

Skúli Helgason, flokksbróðir Ólínu, sagði að með kaupum Magma Energy á HS Orku hefði erlendur aðili í raun verið að kaupa hlut annars erlends aðila.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna töluðu þvers og kruss í þessu máli. Málið væri greinilega að valda ríkisstjórninni ómældum innri vandræðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert