Ekki hægt að réttlæta kennslu í sömu greinum í mörgum skólum

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands.

Félag prófessora við ríkisháskóla segir í sparnaðartillögum til rekstors skólans, að ljóst sé að  í þeim fjármálahremmingum sem núna ríði yfir sé ekki hægt að réttlæta að boðið sé upp á kennslu í sömu greinum í mörgum háskólum, t.d. er verkfræði kennd við tvo skóla, lögfræði við þrjá skóla og viðskiptafræði við fjóra skóla.

Þetta geti varla talist eðlilegt hjá þjóð sem telur 330 þúsund íbúa á sama tíma og nágrannaþjóðirnar eru með einn  rannsóknarháskóla á hverja milljón íbúa. Auk þess séu þessir skólar í harðri samkeppni við háskóla í nágrannalöndunum um nemendur og rannsóknarfé.

Í ljósi þessa leggur félagið til, að Háskóli Íslands geri stjórnvöldum tilboð í að taka við öllum nemendum Háskólans í Reykjavík og bjóða þá velkomna í HÍ og þiggja þar sömu eða betri kennslu en boðið er upp á í HR. Þarna megi meðal annars nefna viðskiptafræði, lögfræði, lýðheilsufræði, sálfræði, tölvunarfræði og verkfræði við HR. HÍ gæti líklega bætt þessari kennslu við sig fyrir um einn milljarð króna og gætu þá sparast 1,5-2 milljarðar á háskólastiginu. Með því að taka við kennslu Háskólans á Bifröst mætti spara um 150-200 milljónir króna.

Þá segja prófessorarnir að HÍ geti tekið að sér kennslu í búvísindum innan Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Þannig yrði grunnkennsla í náttúrufræði sameiginleg, en sérhæfð kennsla í búvísindum kennd sér, og kæmi þá til greina að Hvanneyri yrði „kampus“ HÍ. Þarna gætu legið um 100 milljónir króna í sparnaði.

Einnig gætu HÍ og HA aukið samstarf um kennslu í greinum sem séu sameiginlegar skólunum. Þar megi nefna raungreinar, hjúkrunarfræði og uppeldis- og kennslufræði. Þessi samvinna mætti vera á þann veg að spara mætti nokkra upphæð.

Segir félagið að þessar tillögur gætu sparað fjárframlög til háskólastarfsins um allt að 20% á næstu tveimur árum. Félagið nefnir einnig leiðir til að spara í kennslu, svo sem að fækka námsleiðum og greinum sem kenndar eru, hagræða í kennslu á þann hátt að sameina námskeið og hafa þau stærri og hætta að kenna sama eða samskonar námskeið í mörgum deildum og sviðum.

Þá þurfi að huga að því hvort hækkun skráningargjalda leiði til tekjuaukningar við HÍ án þess að útgjöld ríkisins hækki verulega. Bent er á að 100 þúsund króna skrásetningagjöld færi HÍ 1,5 milljarð í tekjur miðað við núverandi stúdentafjölda.

Þá segir í tiollögunum, að í anda hugmyndafræði sjálfbærar þróunar ætti að leggja á bílastæðagjöld. Við það sparist tvennt, minni þörf verði á bílastæðum í framtíðinni vegna þess að nemendur muni frekar nýta almenningssamgöngur og að auki komi inn tekjur fyrir þá bíla sem nýta stæðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert