Eldgosinu ekki lokið

Eldgosið í Eyjafjallajökli
Eldgosið í Eyjafjallajökli mbl.is/Rax

Eldgosið í Eyjafjallajökli er enn í gangi og er svipað og í gær. Enn eru öskusprengingar í gígnum, samkvæmt nýrri stöðuskýrslu Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Engar tilkynningar hafa borist af öskufalli í dag.

Gosið er svipað og í gær. Flogið var yfir um kl 13 í dag og sást þá öskusprenging sem var enn að stíga þegar flogið var frá, en hafði þá ekki náð sömu hæð og mökkurinn sem fyrir var. Hvorki sást til gígsins né hrauns vegna lágskýja við fjallið.

Um tuttugu skjálftar hafa mælst í jöklinum frá miðnætti, flestir grunnir.

Gosmökkurinn er í um 4 km. skv. athugunum könnunarflugs. Hæg austlæg átt ber mökkinn til vesturs.

Engar eldingar hafa mælst á eldingamælum bresku veðurstofunnar frá klukkan 13 í fyrradag.


mbl.is

Bloggað um fréttina