Stolt af því að vera í baráttusæti

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

„Ég er bara stolt af því að vera í baráttusæti,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, um niðurstöðu nýrrar skoðanakönnunar Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Samkvæmt skoðanakönnuninni fá sjálfstæðismenn 3 fulltrúa í borgarstjórn, en Þorbjörg Helga skipar 4 sætið á lista flokksins.

Aðspurð hvort hún telji að Besti flokkurinn muni á endanum hljóta jafn mikið fylgi og kannanir benda til, segist hún ekki ætla að rengja skoðanakannanirnar. „Ég held að fólk sé ekkert að gantast í skoðanakönnunum. Það bendir allt til þess að Besti flokkurinn muni vinna stóran kosningasigur.“

Halda sínu striki í kosningabaráráttunni

Það litla fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn fær samkvæmt síðustu skoðanakönnunum hefur að sögn Þorbjargar ekki áhrif á hvernig flokkurinn hagar barátunni þá viku sem er til kosninga. „Við treystum Hönnu Birnu fullkomlega til að leiða þessa baráttu og höldum bara áfram að reyna að koma því skýrt til skila að við viljum vinna áfram saman í borgarstjórn að því að verja störf og þá þjónustu sem borgarbúar eiga að njóta.“

Stjórnmálaskýrendur hafa margir bent á að mikið fylgi Besta flokksins skýrist fyrst og síðast af því að fólk sé þreytt á og vilji refsa þeim stjórnmálamönnum sem við völd. Þorbjörg Helga segist hafa skilning á því.

Þurfa að ræða saman um breytingar á kerfinu

„En það er mikilvægt að kjósendur geri sér grein fyrir því að þessar kosningar snúast um framtíð Reykjavíkurborgar næstu fjögur árin, og verið er að velja fólk sem þarf að taka mikilvægar ákvarðanir, vonandi í góðu samstarfi á milli allra flokka.

Ég skil vel að andúðin sé mikil á stjórnmálaunum í heild sinni. En það er mikilvægt að ræða breytingar á kerfinu líka, ekki bara hafna því, og það er það sem við þurfum í sameiningu að reyna að gera eftir kosningar,“ segir Þorbjörg Helga.

Jón Gnarr oddviti Besta flokksins
Jón Gnarr oddviti Besta flokksins mbl.is
mbl.is