Hætt við flug milli Akureyrar og Lundúna

Iceland Express.
Iceland Express.

Iceland Express hefur ákveðið að fresta reglubundnu flugi milli Akureyrar og Lundúna, sem vera átti í sumar, þar til næsta ár.  Ástæða þess er sú, að dregið hefur úr eftirspurn eftir ferðum, bæði hér heima og í öðrum löndum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.


„Þetta er ekki skemmtilegt í ljósi þess, að fyrir gos voru bókanir sem aldrei fyrr og það leit út fyrir besta ferðasumar í sögu lýðveldisins og að fjöldi ferðamanna myndi slá öll met.  Ferðaþjónustan hefur verið sú atvinnugrein sem hefur spjarað sig hvað best í umrótinu undanfarin misseri.  Það er ljóst, að sumarið í sumar verður ekki sú lyftistöng fyrir þjóðfélagið, sem við vonuðumst eftir og þess vegna höfum við ákveðið að draga úr framboði í sumar.  Ég hef hins vegar fulla trú á, að gosið mun hafa mikil og góð áhrif til framtíðar fyrir ferðaþjónustuna og okkur öll,“ segir Matthías Imsland forstjóri Iceland Express, í tilkynningu.

Fjárhagslegt tjón Iceland Express vegna gossins er þó mun minna en áður var talið.   Félagið hefur sett upp aukaflug, þegar færi hefur gefist og því notað, hverja glufu til að koma farþegum sínum á áfangastað.   Þá hefur félagið mætt minni eftirspurn með því að draga úr framboði.
 

mbl.is