Fréttaskýring: Fyrirtækin fjárfesta fyrir milljarða í makríl

Makríllinn hefur reynst búbót.
Makríllinn hefur reynst búbót.

Fyrirtæki í útgerð eru stórhuga fyrir vertíðina á makríl og norsk-íslenskri síld í sumar. Fjárfestingar þeirra hlaupa á milljörðum og markmiðið er að nýta hráefnið sem allra best. Fyrstu skipin eru að byrja á síldinni og væntanlega er makríllinn ekki langt undan.

Flest fyrirtæki hafa fjárfest í búnaði bæði í landi og um borð í veiðiskipunum, auk þess sem Síldarvinnslan og Vinnslustöðin hafa fengið ný skip. Beitir, áður Margrét EA, eitt afkastamesta skipið í flotanum, er kominn til Neskaupstaðar og Vinnslustöðin hefur frá síðustu vertíð keypt togarann Rex, sem nú heitir Gandí, og sett í hann fullkominn vinnslubúnað.

Markmið Síldarvinnslunnar eru, að sögn Gunnþórs Ingvasonar framkvæmdastjóra, að frysta þann makrílafla sem skip fyrirtækisins koma með að landi. Koma verði í ljós hvernig aðstæður verði á miðunum og hver gæði hráefnisins verða, en gangi þetta eftir eykst útflutningsverðmæti afurða verulega.

Síldarvinnslan keypti nýlega eitt öflugasta uppsjávarskip flotans, Margréti EA, og hefur skipið fengið nafnið Beitir. Gunnþór vill ekki gefa upp kaupverðið, en líklegt er að það sé á bilinu 2-3 milljarðar. Skipið var áður í eigu Samherja, sem á 45% hlut í Síldarvinnslunni. Síldarvinnslan byggir á frystingu í landi og eru Beitir og Börkur, sem veiða makríl- og síldarkvótana, búnir öflugum kælitönkum. Síldarvinnslan hefur jafnframt fjárfest talsvert í landvinnslunni fyrir komandi vertíð.

Veitt við Eyjar?

Gandí, áður Rex, er nýtt skip Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri, segir að kaupin og breytingar á REX séu gagngert til að auka frystigetu í makríl og síld. Aðspurður segir hann að fjárfestingin í skipinu og breytingar á búnaði í landi nemi um einum milljarði króna. Hann segist binda vonir við að leyft verði að veiða makríl í grennd við Vestmannaeyjar, en þar hafi síðustu sumur orðið vart við talsvert af makríl. Veiðarnar hafi hins vegar verið bannaðar vestan við línu út af Suðausturlandi. Fyrstu kolmunnakílóin fóru í gegnum vinnslulínu Gandís á föstudag og Sigurgeir segir æskilegt að prufukeyra tækin á síld sem fyrst.

„Vertíðin á síld og makríl í sumar mun einkennast af því að það munu allir kappkosta að hámarka verðmætin í stað vitleysunnar sem var í gangi í fyrrasumar þegar magnið skipti nánast öllu máli,“ segir Sigurgeir. „Það er hins vegar alveg klárt að eitthvað af makrílnum fer í bræðslu, enda er ekkert vit í öðru. Afkastagetan í landi er ekki næg til að vinna 100 þúsund tonn af makríl í frystingu í sumar og ekki víst að markaðir þyldu slíkt magn. Ég held að það væri líka hæpið að fara út í fjárfestingu til að vinna 100 þúsund tonn til manneldis. Hugsanlega verður síðan samið við aðrar þjóðir um að eitthvað minna kæmi í hlut Íslands og þá væri slík fjárfesting út í loftið.“

Mikil uppbygging hefur verið hjá HB Granda á Vopnafirði á síðustu árum. Allt í allt áætlar Eggert B. Guðmundsson, framkvæmdastjóri, að fjárfesting fyrirtækisins á Vopnafirði nemi á fjórða milljarð króna á síðustu árum. HB Grandi er með landvinnslu fyrir uppsjávartegundir. „Með góðri samstillingu veiða og vinnslu þá vonum við að frystingin verði stórt hlutfall af aflanum í sumar,“ segir Eggert. „Aðalávinningurinn í stýringunni sem verður á veiðunum í sumar er að við höfum okkar aflamark. Við getum stýrt veiðum eftir því hvenær makríllinn er bestur til veiða og til vinnslu og hámarkað verðmæti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert