Heldur sig innandyra í öskufoki

Þorvaldseyri í öskumekki meðan gosið í Eyjafjallajökli stóð sem hæst.
Þorvaldseyri í öskumekki meðan gosið í Eyjafjallajökli stóð sem hæst.

„Það er bara ótrúlegt mistur,“ segir Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, spurður út í öskufokið sem undir Eyjafjöllum og á Sólheimasandi í dag. Segir Ólafur að þegar verst lét hafi skyggnið aðeins verið um 300 metrar.

„Maður hélt nú bara að rigningin um daginn hefði skolað þessu ryki niður, en svo er aldeilis ekki,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is, en hann hefur haldið sig innandyra nú síðdegis. 

Hann segir ryk vera á húsum, gangstéttum og á bílum. Um tíma hafi verið það dimmt að hann hafi kveikt öll ljós. Hann tekur hins vegar fram að dagurinn hafi byrjað bjartur og fallegur. Dæmið hafi síðan snúist við.  

„Hér er vestanátt og það kemur vindur af hafi, og þetta er að fjúka inn á land. Og hér ennþá meira fyrir austan mig. Það má kannski frekar segja að ég sé á jaðarsvæði miðað við magnið af öskunni. Hún eykst hérna strax við Steinafjallið,“ segir Ólafur. 

Spáð er þurrki og hæglætis veðri fram að helgi. Að sögn Ólafs er því hætt við sólfarsvindum síðdegis, eins og hafi gert í dag.

„Þetta kom okkur verulega á óvart hvað þetta allt í einu varð dimmt og mikið. En þetta er nú það sem við höfum óttast og vitum að verður. Að svifryk er óþolandi í þurrki,“ segir Ólafur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert