Eykur líkur á dómstólaleiðinni

Stefán Már Stefánsson prófessor.
Stefán Már Stefánsson prófessor. Ásdís Ásgeirsdóttir

„Það held ég að sé alveg rétt mat. Ef þetta endar með samningsbrotamáli er alveg hægt að koma því fyrir EFTA-dómstólinn. Það opnar þann möguleika,“ segir Stefán Már Stefánsson lagaprófessor um það mat formanns framsóknar að niðurstaða ESA í Icesave-málinu auki líkur á að málið fari fyrir dómstóla.

Stefán Már segir niðurstöðuna engu breyta um eigin afstöðu í málinu.

„Þessi niðurstaða breytir engu um mína niðurstöðu. Ég er búinn að skrifa um málið og komast að ákveðinni niðurstöðu. Þetta er í ósamræmi við hana. Þannig að ég þarf varla að rökstyðja mitt sjónarhorn frekar. Það eru margar ástæður sem við færðum fyrir því að ríkið bæri enga ábyrgð á þessu. Þær eru margar, ekki aðeins ein,“ segir Stefán og vísar til greinarflokks þeirra Lárusar Blöndals hæstaréttarlögmanns í Morgunblaðinu.

„Þessi niðurstaða okkar hefur auk þess verið staðfest í ítarlegu máli í rannsóknarskýrslu Alþingis. Ég tel þetta alls ekki veikja samningsstöðu Íslands.“

- Sigmundur Davíð telur þetta gleðitíðindi þar sem þetta auki líkurnar á því að málið fari fyrir dómstóla. Telurðu að þetta sé rétt mat á stöðunni?

„Það held ég að sé alveg rétt mat. Ef þetta endar með samningsbrotamáli er alveg hægt að koma því fyrir EFTA-dómstólinn. Það opnar þann möguleika.“

- Hvers vegna?

„Það er vegna þess að ESA hefur eftirlitshlutverk. Stofnunin á að sjá um að EES-samningurinn sé ekki brotinn og allar gerðir sem honum tilheyra. Ef hún telur að við höfum brotið þennan samning þá kemst hún að því með ákvörðun en það er ekki komið að henni ennþá. Þetta eru bráðabirgðaráðstafanir núna. Þegar ákvörðunin liggur fyrir er hægt að bera hana undir EFTA-dómstólinn. Svoleiðis kemst málið fyrir dómstólinn.“

- Hvað þýðir hugtakið samningsbrotamál í þessu samhengi?

„Það þýðir að aðildarríki er talið hafa brotið EES-samninginn með einhverjum hætti. Samningsbrotamál getur fjallað um allt mögulegt en þetta fjallar um þessa tilskipun. Dómstóll EFTA á endanlegt úrskurðarvald um hvort svo hafi verið.“

- Hvenær gæti málið farið fyrir dómstól?

„Ég hef nú svo sem enga trú á því að þetta fari fyrir dómstól á næstunni. Það þarf að svara niðurstöðunni og svo koma einhver önnur svör og svo þarf að höfða mál. Það tekur allt sinn tíma. Svo tekur dómstólsmeðferðin sjálf tíma.“

mbl.is