Rauðhumla, ryðhumla eða loðsveifa?

Ryðhumla. Myndin er af vef Náttúrufræðistofnunar.
Ryðhumla. Myndin er af vef Náttúrufræðistofnunar.

Sagt var frá því nýlega að ný hunangsflugutegund, rauðhumla, hefði numið hér land. Náttúrufræðistofnun segir nú, að málið hafi reynst flóknara en virtist við fyrstu sýn og í ljós hafi komið að önnur rauð hunangsfluga, sem nefnd er ryðhumla, sé einnig að hasla sér völl hér á landi. Til að flækja málið enn meir er þriðja flugutegundin, loðsveifa, nokkuð lík hinum tveimur og því er ekki auðvelt að þekkja þessar flugur í sundur. 

Náttúrufræðistofnun bárust fjöldamargar tilkynningar um rauðhumlur eða meintar rauðhumlur víða að af landinu eftir að fyrstu fréttir birtust upp úr miðjum maí. Segir stofnunin, að reyndar hafi flestar tilkynningarnar átt við um alls óskylda tegund af ættbálki tvívængja, þ.e. sveifflugu sem kallist loðsveifa. Margar sveifflugur líkist geitungum en loðsveifa líkist hins vegar rauðum humlutegundum. Hún sé loðin og liturinn áþekkur humlunum. Hún sé þó mun minni og þekkist m.a. á því að hún stoppar í loftinu.

Segir stofnunin að loðsveifur séu algengar í görðum á Íslandi og lukkist það jafnt að gabba rándýr sem mannfólk.

Fréttin af rauðhumlunni vakti einnig athygli erlendis og ábending kom frá breskum býflugnafræðingum um að af myndum að dæma gæti verið um tvær tegundir að ræða. Við nánari skoðun kom í ljós að sú var raunin.

Humla sem mynduð var og safnað í Hveragerði 17. maí síðastliðinn skar sig frá öðrum þar sem hún var með ryðrauðan afturenda en ekki hvítan eins og rauðhumlurnar. Í ljós kom að um var að ræða tegund sem hefur verið nefnd ryðhumla á íslensku. 

Nú telur Náttúrufræðistofnun, að staðfestar rauðhumlur séu nú þekktar frá Keflavík, Hafnarfirði og Reykjavík og ryðhumlur frá Hveragerði og Akureyri. Talið var að svartar humlur frá Mosfellsdal í fyrra hafi verið afbrigðilegar rauðhumlur en fram hafa komið efasemdir um að það standist.

Vefur Náttúrufræðistofnunar


Loðsveifa.
Loðsveifa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert