Allar fangageymslur fullar

Óvenju mikið var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og eru allar fangageymslur fullar. Þrír karlmenn voru handteknir við að skemma bíla, meðal annars með exi, en talið er að þeir hafi skemmt samtals átta bíla. Tveir aðrir eru vistaðir í fangageymslu eftir að hafa verið gripnir við að brjótast inn í bíla og skemma þá.

Þá er kona vistuð í fangageymslum sem tekin tekin var eftir að hafa ekið á tvo kyrrstæða bíla við Blesugróf í Reykjavík. Hún var að sögn lögreglumanns á vakt mjög lyfjuð.

Þrjú þjófnaðarmál komu upp. Brotist var inn í verslunina Adam og Evu á Hverfisgötu - enn einu sinni, eins og lögreglumaður á vakt orðaði það. Styggð virðist hins vegar hafa komið að þjófunum sem stálu engu. Farið var inn í geymsluhúsnæði fyrirtækis við Kársnesbraut í Kópavogi, en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort einhverju var stolið. Þá var brotist inn í kaffihús í grasagarðinum og talsvert magn af bjór tekið. Það mál er í rannsókn.

Loks tók lögreglan einn ökumann fyrir ölvunarakstur og annan fyrir að aka án réttinda.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kalla að Maríuhellum í Heiðmörk um ellefu leytið í gær. Var þar búið að hlaða bálköst og kveikja í. Vel og fljótt tókst að slökkva eldinn og var aldrei hætt á ferð, að sögn slökkviliðsmanns á vakt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert