Fólk haldi sig innandyra

Víða sjá menn ekki handa sinna skil en mikið öskumistur …
Víða sjá menn ekki handa sinna skil en mikið öskumistur liggur yfir Hvolsvelli og víðar á Suðurlandi. mbl.is/Helgi Hermannsson

„Þegar það er sýnilegt mikið öskufjúk þá erum við að ráðleggja fólki að halda sig frekar innandyra, og nota öndunargrímur [eða annað sem hlífir öndunarfærum þegar það fer út],“ segir Þórir Kolbeinsson, sem er yfirlæknir á heilsugæslustöðinni á Hellu og sóttvarnalæknir í Rangárvallar- og Austur-Skaftafellssýslu.

Þórir segir að margir finni fyrir óþægindum í augum og í öndunarfærum „en við höfum ekki séð neinar langvinnar afleiðingar af því.“

Þeim tilmælum sé þó beint til þeirra sem hafi greinst með hjarta- eða öndunarfærasjúkdóma að fara varlega þegar öskufall er mikið. Þeir geti verið viðkvæmari en ella, sérstaklega þeir sem séum með asma eða glími við ofnæmisvandamál.

„Sama gildir um börnin. Ef þau eru úti þá verður að hafa það í huga að börnin eru, hæðar sinnar vegna, nær jörðinni þar sem er hætta á meira ryki eða ösku,“ segir Þórir.

Þá segir hann að það sé skynsamlegt fyrir þá sem telja sig finna fyrir miklum óþægindum af völdum öskunnar, án þess þó að verða beinlínis veikir, að fara af því svæði þar sem öskufallið sé. Það hafi margir gert.

Þórir bendir á að ekki sé búið að rannsaka langtímaáhrif ösku á fólk. Ekki sé vitað hvort hún sé mönnum skaðleg til lengri eða skemmri tíma.

Samanburðarrannsóknir á svifryki í borgum og svifryki vegna ösku sýni fram á ólíkar niðurstöður. „Í svifryki í þéttbýli eða borgum er afskaplega mikið af olíusamböndum sem hreinlega geta verið krabbameinsvaldandi í sumum tilvikum. Þau finnast ekki í ösku,“ segir Þórir.

Þá hafi menn ekki áhyggjur af flúori í öskufokinu. Um leið og askan sé skoluð með vatni þá hætti flúor að vera áhyggjuefni.

„Þá standa eftir þessar agnir, bæði stærð þeirra og lögun. Hvort að það sé háskalegt. Það er eiginlega sem við vitum minnst um.“

Viðbrögð við öskufalli á vef Umhverfisstofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina