Óróinn hélt áfram í morgun

Lítið sást til jökulsins frá vefmyndavél Mílu um kl. 9 …
Lítið sást til jökulsins frá vefmyndavél Mílu um kl. 9 í morgun. Míla

Nýr óróakippur varð í Eyjafjallajökli um sjöleytið í morgun og var hann með svipuðum hætti og um miðjan dag í gær þegar gosórói jókst verulega þar til hann datt niður að mestu um áttaleytið.

Styttri óróapúlsar komu fram á jarðskjálftastöðvum við jökulinn kl. 20:45 og kl. 21:20. Á meðan á þessum óróahviðum stóð sást svartur eða dökkgrár mökkur. Lítill mökkur sást kl. 01:25 á vefmyndavél Mílu við Þórólfsfell og um fimmleytið í morgun stóð hvítur gufustrókur upp af jöklinum.

Óróinn hefur svo haldið áfram nú í morgunsárið með svipuðum hætti. Að sögn veðurstofunnar hafa engir skjálftar fylgt þessum óróahviðum og undanfarið hafa eingöngu verið smáir, grunnir skjálftar undir fjallinu. Líklega hefur losnað um fyrirstöðu í gígnum með auknu gasstreymi og öskusprengingum, að sögn veðurstofunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina