Heimatilbúinn vandi Jóhönnu

Þór Saari.
Þór Saari. mbl.is/Árni Sæberg

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, kveðst hafa setið fund efnahags- og skattanefndar Alþingis á föstudag, þegar tölvupóstsamskipti Más Guðmundssonar og seðlabankans við forsætisráðuneytið, voru kynntir og þeim dreift.

Hann hafi ekki talið þetta mál heyra undir efnahags- og skattanefnd. Hann hafi ekki talið ástæðu til þess að lesa tölvupóstana og hafi hreinlega hent þeim í ruslið eftir fundinn. Málið lykti frekar af því að einhver pólitískur leikur sé í gangi þar sem reynt sé að koma höggi á forsætisráðherra.

„Greinilega er þarna einhver misbrestur á í samskiptum og menn fengu það svo sem á tilfinninguna að ráðuneytisstjórinn væri ekki að segja alla söguna,“ segir Þór um fundinn, en á hann mættu Már sjálfur, Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra, ráðuneytisstjóri hans og ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu.

Þór segist líta svo á að þetta mál allt sé hluti af því vandamáli sem skapaðist þegar ríkisstjórnin hafi ákveðið í miklu „pópúlisma“ að fara af stað með launalækkanir embættismanna út um allan bæ.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir erfitt að komast að annarri niðurstöðu, miðað við fréttir af tölvupóstunum, en að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafi verið meðvituð um launamál Más og verið með í ráðum um að reyna að komast fram hjá reglum um laun opinberra starfsmanna.

Málið kalli á skýringar ráðherrans, sem hafi sjálfur lagt upp með þá stefnu að enginn mætti hafa  hærri laun en forsætisráðherra. Vandinn sé því algerlega heimatilbúinn.

„Af þessum samskiptum má sjá að í tilfelli seðlabankastjóra þá hefur þetta borist í tal við ráðuneytið hvernig ætti eiginlega að útfæra þetta,“ segir Bjarni. ,,Hún ber ábyrgð á forsætisráðuneytinu,“ segir Bjarni um Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert