85% barna í sameiginlegri forsjá

Forsjá 1.213 barna yngri en 18 ára var ákveðin með …
Forsjá 1.213 barna yngri en 18 ára var ákveðin með úrskurði hér á landi árið 2009 mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Forsjá 1.213 barna yngri en 18 ára var ákveðin með úrskurði hér á landi árið 2009. Af 550 lögskilnuðum þurfti að úrskurða um forsjá barna í 318 tilvikum. Af 703 sambúðarslitum þurfti að úrskurða um forsjá barna í 440 tilvikum. Fjögur af hverjum fimm börnum lutu sameiginlegri forsjá foreldra sinna hér á landi 2009, að því er fram kemur í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Frá árinu 2002 hefur sameiginleg forsjá verið algengust hér á landi eftir skilnað foreldra, en það varð fyrst mögulegt árið 1992. Fram að því var algengast að móðir færi ein með forsjá.

Árið 2009 var forsjá barna eftir skilnað þannig fyrir komið að 487 börn nutu sameiginlegrar forsjár foreldra sinna, 74 börn nutu einungis forsjár móður en níu börn einungis forsjár föður. Rúmlega fjögur af hverjum fimm börnum voru þannig í sameiginlegri forsjá foreldra árið 2009 eða 85,1%.

mbl.is

Bloggað um fréttina