Spyr um sannleiksskyldu ráðherra

Birgir Ármannsson
Birgir Ármannsson mbl.is/Ómar

„Til þess að þingið geti rækt eftirlitshlutverk sitt með framkvæmdavaldinu, verður það að geta treyst því að upplýsingar sem ráðherra gefur séu réttar og fullnægjandi miðað við tilefnið,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Birgir hefur lagt fram fyrirspurn til forsætisráðherra um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra, þar sem hann spyr hvaða réttarreglur, skráðar og óskráðar, gildi að íslenskum rétti um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi og hvaða viðurlög séu við brotum á slíkri skyldu. Einnig spyr hann hvort forsætisráðherra telji tilefni til að breyta þessum reglum, skýra þær eða eftir atvikum herða þær.

Tilefnið umræða um laun seðlabankastjóra

„Mér finnst tilefni til að árétta spurningu af þessu tagi núna, því að mínu mati hafa komið fram mjög villandi og misvísandi upplýsingar frá forsætisráðherra [um ákvörðun um laun seðlabankastjóra], meðal annars hér í sölum Alþingis,“ segir Birgir, en bætir við að spurningin sé þó mun víðtækari en svo að hún snúist eingöngu um það tiltekna mál.

Aðspurður segir hann að vissulega eigi spurningin einnig við um yfirlýsingar ráðherra um stöðu bankanna fyrir hrun þeirra, og eins ýmsar aðrar yfirlýsingar í gegnum tíðina.

Gefi ráðherra þinginu upplýsingar sem eru hann veit að eru rangar eða villandi kann það að varða við lög um ráðherraábyrgð, segir Birgir. „Hins vegar hefur lítið sem ekkert reynt á þetta í framkvæmd, þannig að hér á landi hefur kannski fyrst og fremst verið um pólitíska ábyrgð að ræða. En einmitt af þeim sökum tel ég ástæðu til að vekja athygli á því að það kunni að vera tilefni til að skýra þessar reglur og herða þær.“

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert