„Heilladagur fyrir Ísland“

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra á von á löngum og ströngum aðildarviðræðum við Evópusambandið. Össur ræðir aðildarferlið og stöðu ríkisstjórnarinnar í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið. Hann telur tímamótin í Evrópumálum „heilladag fyrir Ísland“.

Einkar glaður

- Nú er þetta búið að vera í undirbúningi lengi. Hvernig er þér innanbrjósts á þessum degi þegar að þetta er komið þetta langt?

„Ég er einkar glaður. Ég tel að þetta sé mikill heilladagur fyrir Ísland vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að umsókn og aðild að Evrópusambandinu sé burðarás í uppbyggingu hins nýja Íslands.

Ég er sannfærður um að þetta muni færa okkur gæfu og farsæld og ég horfi á það að Evrópusambandinu hefur þrátt fyrir allt tekist að tryggja sínum ríkjum trausta efnahagslega umgjörð með þokkalegum, varanlegum hagvexti, lágum vöxtum og lágri verðbólgu. Ég er þeirrar skoðunar að það muni verða mjög erfitt fyrir okkur að byggja Ísland upp á grundvelli gömlu krónunnar.

Ég tel að fyrir okkur séu valkostirnir þeir að fara inn í framtíðina með krónu í gjaldeyrishöftum annars vegar og hins vegar evru með lágum vöxtum og lágri verðbólgu og stöðugleika.

Þetta eru valkostirnir fyrir mér. Dagurinn er líka mikilvægur vegna þess að hann er stórt skref í að framfylgja samþykkt Alþingis um að fara í samningaviðræður við Evrópusambandið, gera samning og leggja hann fyrir þjóðina. Þetta er mikilvægur áfangi í því.“

Vandræðin á evrusvæðinu hafa áhrif

- Andstæðingar aðildar benda á vandræðin á evrusvæðinu. Þú óttast ekki að þessi vandræði verði til að slá á áhuga Íslendinga á aðild að sambandinu?

„Örugglega hafa þau tímabundin áhrif en ég fæ ekki betur sé en að Evrópusambandið sé að greiða úr þessum vandamálum. Ef maður tekur til dæmis Grikkland og Ísland þá er vitaskuld ljóst að Grikkir lentu í miklum vandræðum af því að þeir tengdu fram hjá. En þeir höfðu traustan og öruggan bakhjarl og ég ímynda mér að það hefði skipt máli fyrir Ísland ef við hefðu haft slíkan bakhjarl á sínum tíma þegar að við lentum í hremmingum.

Fyrir utan það, að ég tel að ef Íslendingar hefðu borið gæfu til að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna fyrir svona áratug að þá hefðum við ekki lent í þessari djúpu fjármálakreppu sem síðan brast á.“

Óháð Icesave-deilunni

- Hvernig svararðu til frétt Reuters þessa efnis að Bretar og Hollendingar fallist á þetta skref ESB í trausti þess að þeir hafi fullvissu fyrir hagfelldri útkomu í Icesave-deilunni?

„Það er alveg ljóst að umsókn okkar að ESB og Icesave eru tveir aðskildir hlutir. Það hefur verið margítrekað með yfirlýsingum forystumanna Evrópusambandsins og stækkunarstjóra framkvæmdastjórnarinnar.

Þannig að það hefur algerlega legið fyrir. Engin samtöl hafa átt sér stað af hálfu íslenskra stjórnvalda við stjórnvöld í þessum tveimur ríkjum þar sem gefnar hafa verið einar eða neinar tryggingar. Það eina sem liggur fyrir er að forystumenn allra flokka og forseti Íslands hafa sagt það á umliðnum mánuðum, eða allar götur frá synjun, að Íslendingar muni ekki hlaupa frá skuldbindingum sem þeir hafa samkvæmt EES-samningnum.

Ég geri ráð fyrir því að þessar fréttir byggi á yfirlýsingum sem fram hafa komið frá stjórnmálamönnum í þessum löndum og þá kannski helst Hollandi. Nú er það svo að í stjórnmálum er til nokkuð sem kalla má heimamarkað. Ég ímynda mér að þessir hollensku stjórnmálamenn hafi verið að tala fyrir sitt gallerí.

Allir vita að í Hollandi hefur Icesave-málið verið mjög ofarlega á dagskrá stjórnmála. Þar stendur nú yfir stjórnarmyndun þar sem að þeir flokkar sem harðast hafa talað í Icesave-málinu freista þess að mynda nýja ríkisstjórn. Mér er ekki örgrannt um að vel sé hugsanlegt að menn í forystu þessara flokka séu með yfirlýsingum af þessum toga að tala fyrir sinn markað.

Hitt er kristaltært að engar yfirlýsingar, bréf eða samtöl af hálfu íslenskra stjórnvalda hafa lofað einu eða einu, enda er það þannig að Icesave-samningarnir eru í höndum samninganefndar þar sem stjórnarandstaðan á aðild að.“

Samningsstaðan nokkuð góð

- Nú hefur oft árað betur hjá Íslendingum. Hvernig meturðu samningsstöðu landsins við ESB á þessum tímapunkti?

„Ég met hana nokkuð góða. Ég er þó sannfærður um það að þetta verða erfiðir og harðir samningar og langdregnari en vísustu menn í Brussel og hér heima hafa gert skóna. Fyrirfram hef ég ætlað að það verði einkum tvö sviði sem verði erfið, fiskveiðar og landbúnaðarmál.

Ég tek þó fram að í öllum samningum koma upp óvænt mál sem menn gera ekki ráð fyrir og verða stundum erfið. Hvað sjávarútvegsmálin varðar er óneitanlega nokkur styrkur af því að sjá að svo virðist sem að talsmenn Evrópusambandsins séu loksins búnir að gera sér grein fyrir því sem við Evrópusinnar hér heima höfum haldið lengi fram, að reglur sambandsins eru þannig að þær munu gera það mjög erfitt fyrir önnur ríki að koma hér og krefjast aflaheimilda.

Ég hef tekið eftir því í fréttum síðustu vikur að þettta hafa þeir í Brussel verið að segja á fundum. Sjálfur hef ég talað við forystumenn helstu sjávarútvegsþjóðanna og forystumenn í sjávarútvegi þar, til dæmis á Spáni, og taldi fyrirfram að skilningur þeirra á stöðu Íslands væri mun takmarkaðri og verri heldur en kom fram í þeim samtölum. Það á þó eftir að koma fram við samningaborðið hvort þessi skilningur sem hefur birst í samtölum sé handtækur. Það er auðvitað okkar markmið.

Ég er ekki svartsýnn á það. Varðandi landbúnaðarmálin tel ég eftir að hafa skoðað mjög reynslu Finna og átt samræður við finnska embættismenn og stjórnmálamenn að það svigrúm sem Finnar fengu fyrir sinn landbúnað gefi tilefni til þess að fara af stað í viðræður án þess að vera hlaðinn óhóflegri svartsýni.“

Stuðningurinn við aðild mun aukast á ný 

- Hvernig skýrirðu þá útkomu nýlegrar skoðanakönnunar að góður meirihluti Íslendinga sé andvígur aðild?

„Ég tel að það sé fyrst og fremst Icesave-málið. Það er athyglisvert að ef maður skoðar kannanir Samtaka iðnaðarins síðustu tíu árin eða svo, að þá eru niðurstöður flestra kannanna sem benda til þess að meirihluti þjóðarinnar sé fylgjandi því að sækja um aðild og oft hefur meirihluti jafnvel viljað ganga inn í Evrópusambandið.

Stuðningurinn fellur nákvæmlega þegar Icesave-málið ber hæst. Á þeim tíma varð opinbert að þjóðir innan Evrópusambandsins beittu sér sterklega gegn því að efnahagsáætlun okkar væri afgreidd innan stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það vakti eðlilega mikla andstöðu og reiði meðal Íslendinga. Ég held að þetta hafi skipt langmestu máli.“

- Telurðu að andstaðan við aðild eigi eftir að snúast upp í stuðning með tímanum?

„Ég er sannfærður um það. Með tímanum mun þetta rétta sig af. Ég er þess fullviss að þegar menn horfa framan í valkostina og Íslendingar geta tekið afstöðu til samningsins sjálfs þá muni þeir taka þá afstöðu sem er heillavænlegust fyrir þjóðina. Ég tel afdráttarlaust að það sé aðild.“

Munaði litlu í mars

- Nú hefur Icesave-málið staðið lengi yfir og það er hugsanlega langt þangað til að ný stjórn verður mynduð í Hollandi eftir nýafstaðnar kosningar. Hvenær sérðu fyrir þér að það mál geti verið til lykta leitt?

„Ég á ekki kristalskúlu sem hægt er að skoða það í. Ég vona að það leysist sem fyrst vegna þess að það væri best fyrir íslensku þjóðina að óvissan sem tengist þessu óleysta vandamáli sé frá. Í mars vantaði ekki nema þumlung frá því að menn næðu saman, svo skammt var á milli.

Ég vona að það verði brátt í lausn en slæ engu föstu um það. Ég er orðinn of lífsreyndur í pólitík til að leyfa mér þann munað að spá nákvæmlega um það.“

- Má horfa til þess að það verði fyrir áramót?

„Ég vona það en ég veit það ekki.“

Stjórnin stendur vel 

- Ef víkjum stuttlega að stjórnmálunum hér heima. Nú fengu stjórnarflokkarnir tveir samanlagt aðeins um 28% atkvæða í Reykjavík í sveitarstjórnarskosningunum. Hvernig meturðu stöðu ríkisstjórnarinnar á þessum tímapunkti?

„Horfum þá líka til skoðanakönnunar Gallup fyrir síðasta mánuð, sem var tekin í kosningamánuðinum. Sé minni mínu ekki tekið að förlast um of þá hafði ríkisstjórnin þingmeirihluta í þeirri könnun. Hún var þó tekin á einu erfiðasta tímaskeiðinu frá því hún tók við stjórn landsins. Sveitarstjórnakosningarnar voru eigi að síður fast skot í stefni stjórnmálaflokkanna, ekki síður míns en annarra.

Hvort þeir halda sér ofan sjávar kemur í ljós þegar kosið verður til þings. Miðað við aðstæður er heilsufar ríkisstjórnarinnar þó bærilegt og ég tel reyndar að staða hennar muni batna út sumarið. Ég ræð það af því að það eru mörg jákvæð teikn sem eru að koma fram í atvinnulífinu og efnahagsmálum og ég held að það styrki ríkisstjórnina.“

Sumarið verður gott fyrir stjórnina 

- Líturðu því svo á að þið séu komin í gegnum erfiðasta skaflinn núna?

„Ég tel að við séum að komast út úr erfiðasta skaflinum um þessar mundir og þegar að líður á sumarið vona ég að við verðum komin út úr honum.“

- Forysta ASÍ hefur verið hávær í gagnrýni sinni á meint aðgerðaleysi stjórnvalda í atvinnumálum. Telurðu að þessar raddir muni nú lægja?

„Ég á von á því að eftir því sem að greiðist betur úr ýmsum flækjum sem tengjast hruninu og eftir því sem að hlutirnir fara að snúast smurðar í atvinnulífinu, þá muni ASÍ líða betur og ánægja og samstaða þjóðarinnar aukast.“

Stórframkvæmdir að fara af stað 

- Hvað viltu segja við þá kjósendur þína sem eru að bíða eftir stórframkvæmdum?

„Við þá vil ég segja að nú er búið að taka ákvörðun um nýjan raforkusamning við Alcan og það er búið að ganga frá raforkusamningi vegna fyrirhugaðrar virkjunnar á Búðarhálsi. Það er sömuleiðis búið að leggja drög að því að það sé hægt að fjármagna slíka framkvæmd. Öll leyfi eru fyrir hendi.

Ég á von á því að sú framkvæmd fari af stað á árinu. Í kjölfar þess vænti ég þess að Alcan ráðist í að stækka verið í Straumsvík. Ég á líka von á því að það muni senn draga að því að Norðurál ljúki fjármögnunarsamningum sínum eins og þeir hafa talað um á þessu sumri.“

- Í Helguvík þá?

„Já. Þannig að ég held að andinn í þeim efnum sé frekar jákvæður og ég tel því að farið sé að hilla undir ýmsar stórframkvæmdir sem við höfum beðið eftir.“

Össur telur að óánægjan með Icesave-málið hafi tímabundin neikvæð áhrif …
Össur telur að óánægjan með Icesave-málið hafi tímabundin neikvæð áhrif á stuðning við aðild að ESB. Reuters
Össur á von á að stórframkvæmdir fari að rúlla af …
Össur á von á að stórframkvæmdir fari að rúlla af stað. Rax / Ragnar Axelsson
Össur segir Icesave-málið og ESB-umsóknina tvö óskyld mál.
Össur segir Icesave-málið og ESB-umsóknina tvö óskyld mál. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina