Hörgársveit skal það heita

Frétt af vefnum horgarbyggd.is.
Frétt af vefnum horgarbyggd.is.

„Niðurstaðan var sú að við töldum að forliðurinn Hörgá væri klárlega vilji íbúa en vegna þess að það væri verið að sameina tvö sveitarfélög í eitt, að þá varð niðurstaðan sú, eftir að við fórum yfir praktísk rök, tilfinningaleg rök og allt þar á milli, að Hörgársveit væri nafnið sem við myndum leggja til,“ segir Hanna Rósa Sveinsdóttir, sveitarstjóri Hörgárbyggðar, um nýtt nafn á sameinuðu sveitarfélagi Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps.

Hanna Rósa segir valið hafa verið erfitt. 

„Það verður að segjast alveg eins og er að þetta olli nýkjörinni sveitarstjórn töluverðu hugarangri hvernig ætti að standa sem best að þessu. Það var gerð könnun í sveitarstjórnarkosningunum um nafn á sveitarfélaginu og það var nafn annars sveitarfélagsins sem var í boði, Hörgárbyggð.

Þrátt fyrir að það væri meirihluti sem valdi það voru nokkur önnur nöfn sem fengu atkvæði.“

Hanna Rósa segir könnunina ekki hafa verið bindandi. 

„Þetta var ekki bindandi heldur var það sett þannig upp í sveitarstjórnarkosningunum að það væri á könnu sveitarstjórnarinnar að taka endanlega ákvörðun um nafnið. Það hefur töluverð umræða orðið um það innan beggja lista hvernig væri best að snúa sér í þessu. Þetta lá ekki alveg ljóst fyrir, fannst okkur.

Þessi könnun er gerð en svo stöndum við frammi fyrir því hvort við eigum að fara eftir henni eður ei og þá fer af stað þessi umræða fram og til baka.“

Það voru tveir listar, J-listi, listi samstöðu og L-listi, Lýðræðislistinn, sem buðu fram í sameinuðu sveitarfélagi í kosningunum 29. maí sl.

mbl.is