Ótengt Icesave-málinu

Icesave-bollinn er greyptur í vitund þjóðarinnar.
Icesave-bollinn er greyptur í vitund þjóðarinnar. Ómar Óskarsson

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir engum vafa undirorpið að engin tengsl séu á milli Icesave-deilunnar og aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Eins og Morgunblaðið hefur greint frá telja hollenskir diplómatar sig hafa fullvissu fyrir því að málin séu tengd þeim í hag.

Aðspurður um þær upplýsingar sem Leigh Phillips, blaðamaður EU Observer, hefur undir höndum þess efnis að hollenskir diplómatar telji sig hafa fullvissu fyrir því að ESB-ríkin hafi fallist á að Icesave-deilan sé deila Íslands og alls sambandsins en ekki aðeins milliríkjadeila þriggja ríkja svarar Steingrímur svo:

„Ég lít á þetta sem tvö algerlega aðskilin mál og við höfum ekki ljáð máls á því að blanda Icesave-málinu saman við þetta fremur en samstarfi við AGS eða annað."

Einhliða túlkun Hollendinga

- Hvernig stendur þá á því að hollenskir diplómatar tala á þennan veg við blaðamann?

„Það getur vel verið að þeir telji þetta sín megin frá. Það er þá einhliða af þeirra hálfu. Þetta er ekkert sem við höfum samþykkt eða skrifað upp á eða getum þess vegna haft áhrif á."

- Þú óttast ekki að þetta kunni að standa í vegi inngöngunnar?

„Ég er nú þannig staddur í því máli að ég er ekki stuðningsmaður inngöngu. Í öðru lagi segi ég að við lítum á þetta sem tvö algerlega aðskilin mál," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina