Hafi bara áhrif á gengistrygginguna

Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands mbl.is/Brynjar Gauti

Hagsmunasamtök heimilanna, Samtök lánþega og talsmaður neytenda hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að þau telji að dómar Hæstaréttar frá miðvikudeginum 16. júní, þar sem gengistrygging lána var dæmd ólögmæt, breyttu engum öðrum ákvæðum gengistryggðra lánasamninga.

„Vaxtakjör sem kveðið er á um í lánasamningum lánþega og lánveitenda skulu því gilda og við þá samninga skal standa nema á annan veg sé samið eða dæmt.

Bent er á að stjórnvöld og kröfuhafar féllust ekki á tillögur um heildstæða lausn í fyrra, svo sem um að gerðardómur kvæði upp úr um lögmæti og forsendubrest og önnur lagarök sem kröfuhöfum hefur verið fullkunnugt um.

Lánþegar hafa mátt þola nóg vegna framgöngu eigenda og stjórnenda bankanna í aðdragandi og kjölfar hrunsins - þó ekki eigi að bæta á herðar þeim þeirri kvöð að endurfjármagna fjármálastofnanir landsins að nýju.

Lýst er furðu á þeim ummælum seðlabankastjóra, að nauðsynlegt sé að breyta vaxtaákvæðum gengistryggðra lánasamninga svo eigendur bankanna þurfi ekki að leggja þeim til aukið fé. Það á ekki að vera hlutverk lánþega að leggja einkafyrirtækjum til aukið rekstrarfé þegar hæfni stjórnenda þrýtur og rekstur stefnir niður á við. Slíkt er hlutverk fjárfesta. Engar ákvarðanir um meðferð gengistryggðra lána verða teknar án aðkomu fulltrúa neytenda.

Stjórnvöld hafa frá hruni nær eingöngu hugsað um hagsmuni fjármálafyrirtækja á kostnað viðskiptavina þeirra. Það hefur skilað þjóðinni þeirri stöðu sem hún er í núna.

Ef það er mat stjórnvalda, að bankakerfið geti ekki staðið af sér dóma Hæstaréttar, sem er ekki trúverðug staðhæfing enda stangast hún á við fyrri yfirlýsingar ráðherra, þá er lagt til víðtækt samráð eða samninga um hvernig bregðast megi við svo allir geti gengið sáttir frá borði.

Saman og hver í sínu lagi hafa undirritaðir marg bent á, að lausn skuldavanda heimilanna og atvinnulífsins eigi að vera sameiginlegt viðfangsefni allra málsaðila. Samræður aðila eru fyrsta skref í átt að lausn. Einhliða ákvarðanir stjórnvalda og þeirra sem Hæstiréttur dæmdi brotlega er hvorki lögleg leið, né réttlát eða leið til sátta.

Réttaróvissa er ekki lengur fyrir hendi eftir dóma Hæstaréttar en óvissa vegna ágreinings um framhaldið getur verið skaðleg öllum málsaðilum og þjóðfélaginu öllu ef sameiginlegur sáttafarvegur finnst ekki fljótt. Neytendur hafa beðið niðurstöðu í hálft annað ár og geta ekki beðið nokkra mánuði í viðbót," segir í yfirlýsingu sem samtökin, auk talsmanns neytenda hafa sent frá sér.

Sömu aðilar hafa sent á alla alþingismenn drög að reglum sem samtökin telja að hægt sé að nota til að leysa úr þeim vanda sem fjármálafyrirtæki telja sig vera komin í vegna dóma Hæstaréttar.  Samtökin telja reglurnar sanngjarnar og réttlátar miðað við þá ótvíræðu og afdráttarlausu niðurstöðu sem að mati samtakanna fólst í dómum Hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina