The New York Times skrifar um Jón Gnarr

Borgarstjórinn og Besti flokkurinn hafa vakið athygli út fyrir landssteinana
Borgarstjórinn og Besti flokkurinn hafa vakið athygli út fyrir landssteinana

Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, og Besti flokkurinn fá umfjöllun í The New York Times í dag, með tilvísun á forsíðu.

Í greininni er því velt upp hvort framboð Besta flokksins hafi verið eintómt grín eða ekki.

Kosningabarátta Besta flokksins er rakin og talin upp kosningaloforð á borð við ísbjörn í Húsdýragarðinn, ókeypis handklæði á sundstöðum og vímuefnalaust Alþingi árið 2020.

Þá er farið yfir ævi og leiklistarferil Jóns Gnarr og skýrt frá því að eftir kosningarnar hafi hann útilokað samstarf við alla þá sem ekki hefðu séð sjónvarpsþættina The Wire.

Í greininni er sagt frá þeim breytingum sem nýr meirihluti hefur þegar kynnt eftir að hann tók við og stefnu hans í að draga úr mengun í Reykjavík og gera borgina umhverfisvænni.

Blaðamaðurinn Sally McGrane lýsir nokkrum öðrum borgarfulltrúum Besta flokksins stuttlega, þ.á m. Óttarri Proppé þar sem hann situr á fundi um fjárhagsáætlun borgarinnar við hliðina á gömlum hljómsveitarfélaga.

„Þótt eitthvað sé fyndið er ekki þar með sagt að það sé ekki alvörumál,“ er haft eftir Jóni Gnarr og minnist greinarhöfundur á að þótt borgarstjórinn hafi ekki talað oft eða mikið á fundi meirihlutans, þá hafi hann haft ótvíræða athygli allra.

Frétt The New York Times má lesa í heild sinni hér.

Hún hefur og eftir vinum borgarstjórans að ákvörðun hans um að fara út í stjórnmál hafi sprottið upp af andlegri vakningu.

Þetta samþykki Jón Gnarr og bæti við: „Af öllum þeim verkefnum sem ég hef fengist við hefur þetta veitt mér langmestu ánægjuna.“

Frá borgarstjórnarfundi í síðustu viku
Frá borgarstjórnarfundi í síðustu viku mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina