Kreppunni lokið segir AGS

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur stöðugleika íslenska fjármálakerfisins ekki ógnað vegna dóms Hæstaréttar um gjaldeyristryggð lán, enda tryggi ríkið innistæður. Hins vegar hefur dómurinn töluverð áhrif á opinber fjármál, hversu hratt verður hægt að aflétta gjaldeyrishöftum og veldur óvissu fyrir bankana.

Þetta kom fram á blaðamannfundi fulltrúa AGS á Kjarvalsstöðum sem lauk fyrir skömmu. Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar AGS á Íslandi, og Franek Rozwadowski, sendifulltrúi sjóðsins á Íslandi, sátu þar fyrir svörum.

Það kom AGS á óvart hversu mörgum spurningum dómur Hæstaréttar skildi eftir ósvarað. Hins vegar kom ekki á óvart að gengistryggðu lánin skyldu vera úrskurðuð ólögmæt. Fulltrúar AGS sögðu það vera dómstóla að greiða úr óvissunni, t.d. varðandi hvaða vexti hin ólögmætu lán skuli bera. Það hvaða vextir verða fyrir valinu hafi áhrif á hversu  stórt höggið verður fyrir bankana, en hefur þó ekki úrslitaáhrif á fjármálastöðugleikann hér á landi.

Á fundinum kom fram að kreppunni á Íslandi sé „tæknilega séð“ lokið, þótt almenningur finni ekki endilega fyrir því. Miðar sjóðurinn þar við að hagkerfið hefur vaxið í tvo ársfjórðunga. Hins vegar er enn umtalsverð áhætta í fjármálakerfinu.

Fulltrúar AGS á Íslandi fagna lögum um aðstoð við fjölskyldur í skuldavanda sem samþykkt voru í síðustu viku. Hraða þurfi endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja til að styðja við efnahagsbatann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert