Miða við lægstu vexti á hverjum tíma

Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Gunnar Þ. Andersen forstjóri Fjármálaeftirlitsins kynntu …
Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Gunnar Þ. Andersen forstjóri Fjármálaeftirlitsins kynntu tilmælin fyrir blaðamönnum mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands hafa beint því til fjármálafyrirtækja að þau miði við vexti sem Seðlabanki ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum sem nú gilda á lánamarkaði í stað gengistryggingar og erlends vaxtaviðmiðs á þeim lánum sem falla undir dóm Hæstaréttar um gengistryggð bílalán. Þetta kom fram á fundi með blaðamönnum í dag.

Á vef Seðlabanka Íslands kemur fram að lægstu vextir á almennum óverðtryggðum útlánum er nú 8,25% en á verðtryggðum lánum eru vextirnir 4,80%.

Vegna þessa hefur Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands sent  fjármálafyrirtækjum tilmæli vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða og kynna þau í kjölfarið á sameiginlegum blaðamannafundi. Tilmælin eru svohljóðandi:
 
„Tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingar­ákvæða.
 
Hinn 16. júní sl. kvað Hæstiréttur Íslands upp tvo dóma varðandi lögmæti lánsskuldbindinga í íslenskum krónum tengdra gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. mál nr. 92/2010 og 153/2010. Niðurstaða réttarins var á þann veg að gengistrygging slíkra lána væri óskuldbindandi.

Á meðan ekki hefur verið skorið úr um umfang og lánakjör þeirra samninga sem dómarnir ná yfir er sérstaklega mikilvægt að afla áreiðanlegra upplýsinga, skapa festu í viðskiptum á fjármálamarkaði og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi.
 
Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands beina því eftirfarandi tilmælum til fjármálafyrirtækja:
 
1.       Lánasamningar sem að mati viðkomandi fjármálafyrirtækis innihalda óskuldbindandi gengistryggingarákvæði sbr. framangreinda dóma Hæstaréttar verði endurreiknaðir. Í stað gengistryggingar og erlends vaxtaviðmiðs skal miða við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum eða ef verðtrygging er valin lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum og beitt er þegar óvissa ríkir um lánakjör sbr. 18. og 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, nema aðilar semji um annað.
 
2.      Meðferð lána gagnvart viðskiptamönnum fjármálafyrirtækja miði við framangreindar forsendur svo fljótt sem auðið er. Geti fjármálafyrirtæki ekki nú þegar fylgt tilmælunum af tæknilegum ástæðum skal það gæta þess að greiðslur verði sem næst framansögðu en þó fyllilega í samræmi við tilmælin eigi síðar en 1. september 2010.


3.      Fjármálafyrirtæki endurmeti eiginfjárþörf sína í ljósi aðstæðna og tryggi að eigið fé verði einnig nægilegt til þess að mæta hugsanlegri rýrnun eigna umfram það sem 1. tölul. leiðir af sér.
 
4.      Skýrslugjöf um gjaldeyrisjöfnuð, lausafjárstöðu og eiginfjárstöðu til Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands verði miðuð við framangreindar forsendur," segir í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitunu.

Sjá vexti Seðlabanka Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina