Velferðarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í dag tillögu Vinstri grænna um að veita veita þeim sem eru á framfærslu Reykjavíkurborgar 15.000 króna sumarstyrk og 5000 krónur vegna hvers barns sem þeir hafa forsjá fyrir.
Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs, segir í tilkynningu að tillagan hafi verið samþykkt með atkvæðum Besta flokksins, Samfylkingar og VG. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi setið hjá.
„Þessi ráðstöfun kostar borgina tæpar 25 m.kr. og þarf ákvörðunin að fá staðfestingu borgarráðs. Það mun væntanlega verða gert á morgun,“ segir Björk.
Fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og VG bókuðu eftirfarandi:
„Það er afleitt að hér á landi skuli hundruð einstaklinga þurfa að leita til hjálparsamtaka í viku hverri til að þiggja matargjafir. Það fer því ekki á milli mála að lægstu laun, hvort sem um er að ræða laun á vinnumarkaði eða bætur hins opinbera eru of lág. Yfir 90% sem þiggja aðstoð hjálparstofnana lifa á slíkum tekjum.
Ekki er til opinber mælikvarði á það, hversu mikið fólk þarf að hafa milli handanna til þess að eiga fyrir nauðþurftum, unnið er að slíku en staðreyndirnar tala sínu máli.
Það er skylda sveitarfélaga að tryggja að íbúar þeirra geti séð fyrir sér og sínum. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er hugsuð sem neyðaraðstoð, ekki tekjur til langs tíma en langtímaatvinnuleysi setur þar strik í reikninginn.
Nú vinnur velferðarráð að því að finna leiðir til að koma fólki sem lifir á fjárhagsaðstoð upp fyrir lágtekjumörk, og einnig er byrjað að vinna að tillögum um hvernig borgin getur á ýmsan annan hátt bætt kjör fátækra Reykvíkinga.
Á meðan unnið er að langtímalausn og hjálparstofnanir eru í sumarfríi hefur Velferðarráð ákveðið að veita sumarstyrk að upphæð 15 þúsund krónur fyrir þá einstaklinga sem njóta fjárhagsaðstoðar og 5 þúsund krónur að auki fyrir hvert barn í þeirra forsjá. Ljóst er að sumaruppbót þessi gerir engan gæfumun hvað kjör viðkomandi einstaklinga varðar en líta má á sem táknrænt skref í áttina að þeirri leiðréttingu sem fyrir liggur á kjörum hinna lægst launuðu.“
Þá var lagt fram í velferðarráði samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá í gær um fjárhagsramma fyrir yfirfærslu um málefni fatlaðra. Velferðarráð var einhuga í því máli og bókaði eftirfarandi:
„Velferðarráð fagnar því að samkomulag liggi fyrir um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga um nk. áramót. Velferðarráð vill nýta tækifærið til að bæta aðgengi og þjónustu við fatlað fólk í sínu nærumhverfi. Tryggja þarf réttindi allra borgarbúa til virkrar þátttöku í samfélaginu, á forsendum hvers og eins. Mikilvægt er að rödd fatlaðra við mótun þjónustunnar í aðdraganda yfirfærslunnar verði sýnileg. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði hafður að leiðarljósi í starfinu til að þjónustan uppfylli mannréttindi fatlaðs fólks.“