Eldsneyti myndi hækka um 15,45 krónur

Hækkun vörugjalds á eldsneyti, samkvæmt hugmyndum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hækkar verð á eldsneyti um 15,45 kr. á lítra, samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Hugmyndirnar voru kynntar í gær og samkvæmt þeim aukast tekjur ríkissjóðs um 0,3% af vergri landsframleiðslu - auk heldur sem gert er ráð fyrir því að ýmsir aðrir skattstofnar hækki með það fyrir augum að bæta stöðu ríkissjóðs.

Verði hugmyndir AGS að veruleika þýðir þær að verð bensínlítrans hækkar úr 193,40 krónum í 208,85 krónur miðað við algengasta verði í dag. Dísillítrinn fer úr 190,40 krónum í 205,85 krónur.

Að sögn Runólfs Ólafssonar framkvæmdastjóra FÍB myndi reksturskostnaður vegna meðalbíls hækka um tæplega 31 þúsund krónur yfir árið og nálægt 50 þúsund krónum vegna jeppa.

„Þetta kemur fram á sama tíma og hugmyndir eru uppi um vegtolla meðal annars út frá höfuðborgarsvæðinu sem hefði í för með sér verulegan útgjaldaauka fyrir þá sem fara reglulega um þá vegi. Hækkun eldsneytisgjalda fer síðan út í verðlagið með tilheyrandi verðbólgu og hækkun á höfuðstól lána heimila og fyrirtækja vegna verðtryggðra lána," segir Runólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert