Útilokar ekki skattahækkanir

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að íslensk stjórnvöld verði ekki að fara eftir hugmyndum AGS um breytingar á skattkerfinu. Þá segir hún að það komi ekki til greina að hækka skatta á fólki með meðaltekjur. Ekki sé þó hægt að útiloka að skattar verði hækkaðir að einhverju leyti.

„Ég held að það sé ágætt að fá hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fram í þessu máli. Það er verið að endurskoða skattakerfið, og þeir hafa sett þarna fram ákveðnar hugmyndir um einföldun á skattakerfinu. Hitt er annað mál að stjórnvöldum ber ekkert að fara eftir þessum tillögum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur fram. Og ríkisstjórnin tekur auðvitað sínar sjálfstæðu ákvarðanir í því efni,“ sagði Jóhanna við blaðamenn að loknum ríkisstjórnarfundi.

Spurð hvort ríkisstjórnin sé að íhuga að hækka skatta segir hún: „Það er alveg ljóst að einhverju leyti þarf að fara í skattabreytingar vegna fjárlaganna á næsta ári. En í mínum huga kemur það t.d ekki til greina, þar sem sett er þarna fram [í skýrslu AGS], að hækka skatta á fólki með meðaltekjur. Ég er að tala um 375.000 kr. í því sambandi. Þá kemur það ekki til greina. Það er ábyggilega mjög erfitt, og vafasamt líka, að fara út í hækkanir á virðisaukaskatti eða á matvörum,“ sagði Jóhanna.

Forsætisráðherra vildi ekki tjá sig um þær tillögur AGS sem ríkisstjórnin sé að skoða. Hún segir að nefnd vinni nú að því að fara yfir tillögur AGS sem muni skila skýrslu síðsumars eða í haust.

„Það er ekki hægt að horfa á málið bara út frá þröngum sjónarhóli hagvaxtar og vinnu, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir. Við verðum líka að horfa á þetta mál út frá hvað heimilin í landinu þola,“ segir Jóhanna.

Spurð hvort hún útiloki ekki skattahækkanir, segir hún: „Það er alveg ljóst að einhverju leyti þarf að taka tekjur inn í gegnum skatta, en við erum að vona að það verði í algjöru lágmarki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert