Viðræður um styttri leigutíma að hefjast

Orkuver HS Orku.
Orkuver HS Orku.

Formlegar viðræður hefjast innan skamms um að leigutími samnings Magma Energy við Reykjanesbæ um jarðhitaréttindi verði styttur. Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, upplýsti þetta eftir ríkisstjórnarfund í dag.

Magma Energy hefur samkvæmt samningnum við Reykjanesbæ nýtingarrétt á jarðhita í 65 ár og getur framlengt hann um önnur 65 ár, ef vilji er fyrir hendi. Katrín sagðist vilja stytta þennan tíma, en teldi óæskilegt að rifta samningnum. Sagði Katrín, að þríhliða viðræður um að stytta samningstímann hæfust innan skamms.

Katrín sagðist vera að vinna að frumvarpi sem stytti heimildir sveitarfélaganna til að leigja frá sér auðlindir. Í þessu sambandi þurfi annarsvegar að taka tillit til jarðvarmans og hins vegar til vatnsaflsins. Hún sagðist telja, að leigutími vatnsafls geti verið lengri, jafnvel 40-45 ár, en leigutími jarðvarma um 30-35 ár.

mbl.is