Skoða rennslisvirkjun í Ölfusá

Ölfusá við Selfoss.
Ölfusá við Selfoss.

Framkvæmda- og veitustjórn Árborgar hefur samþykkt að láta kanna möguleika á rennslis­virkjun í Ölfusá. Fram kemur í Sunnlenska fréttablaðinu, að framkvæmdin yrði sameinuð byggingu nýrrar Ölfusárbrúar, í stað brúar yrði ekið yfir stíflu.

Fram kemur í blaðinu að nái áformin fram að ganga yrði virkjun að veruleika árin 2014 eða 2015. Rennslisvirkjun sem þessi myndi framleiða á bilinu 15 til 45 megavött og myndi skapa tvö hundruð störf á meðan á byggingu stæði.

Haft er eftir Elfu Dögg Þórðardóttur, formanni fram­kvæmda- og veitustjórnar Árborgar, að við fyrstu skoðun virðist fátt standa í vegi fyrir virkjun. „Við höfum ekki efni á öðru en að skoða málið. Hreinn hagnaður yrði á bilinu 500 til 1500 milljónir á ári. Skuldir sveitarfélagsins hyrfu þannig á skömmum tíma,“ segir hún.

Áform eru um að í tengslum við tvöföldun Suðurlandsvegar verði byggð ný brú yfir Ölfusá um Efri Laugardælaeyju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert