Ekki ósanngjörn lending

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon.

„Niðurstaða héraðsdóms er ekki fjarri því sem ég taldi líklega í málinu þótt aldrei sé hægt að gefa sér slíkt fyrir fram,“ segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. Mikilvægt sé þó að gera sér grein fyrir að Hæstiréttur eigi eftir að dæma í málinu.

„Niðurstaðan byggir á þeim vöxtum sem rætt er um í lögunum og er þar fyrir utan ekki ósanngjörn lending á milli ýtrustu krafna bæði lánveitenda og lántaka.“ 

Gylfi hefur sagt að það yrði þungt högg á kerfið ef samningsvextir stæðu. „Það er að vísu ekki útaf bílallánunum eingöngu þau vega nú ekki mjög þungt. Lán til fyrirtækja vega miklu þyngra, ef samningsvextir ættu að vera á öllum myntkörfulánum fyrirtækja yrði það mjög þungt högg á kerfið og ríkissjóð og þar með almenning.“

Boðað hefur verið til óformlegs ríkisstjórnarfundar í Fjármálaráðuneytinu í dag klukkan 16:30. Gylfi segir að þar muni ráðherrar funda ásamt fulltrúum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Fundurinn sé ekki vegna dómsins sérstaklega heldur standi til að ræða myntkörfumálin almennt.

mbl.is

Bloggað um fréttina