Ekki óvenjulegt að tölvukerfi bili

Gestur G. Gestsson forstjóri Skýrr.
Gestur G. Gestsson forstjóri Skýrr. mbl.is

Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr, kveður það alls ekki óeðlilegt að tölvukerfi bili. Vefsíðurnar Orkuauðlindir.is, þar sem undirskriftum er safnað vegna kaupa Magma á hlut GGE í HS orku, og Airwaves.is, heimasíða Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar, liggja nú niðri en þær eru báðar hýstar hjá Skýrr.

„Það kom upp bilun í vélbúnaði í nótt, sem er ósköp eðlilegt. Nú er unnið að því að endurheimta gögn og koma þessu upp aftur,“ segir Gestur sem kveður öll tölvukerfi brigðul. 

„Öll tölvukerfi geta bilað á hvaða tíma. Þetta er bara spurning um hversu öfluga hýsingu menn kaupa sér. Hvort allt sé tvöfaldað eða hvort menn kaupi ódýrari lausn,“ segir Gestur.

„Þetta er óheppilegt því þetta er í umræðunni núna en ekki óvenjulegt. Allar getgátur um að þarna sé á ferðinni skemmdarverk eða mannlegur illvilji er ekkert sem við getum staðfest,“ segir Gestur en Jón Þórisson, forsprakki orkuauðlinda.is, velti því fyrir sér í samtali við mbl.is fyrr í dag hvort hagsmunaaðilar Magma tengist málinu á einhvern hátt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina