Furða sig á gengisdómi

Margir notuðu gengislán til að fjármagna bílakaup. Úr myndasafni.
Margir notuðu gengislán til að fjármagna bílakaup. Úr myndasafni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hagsmunasamtök heimilanna furða sig á þeirri niðurstöðu héraðsdóms sl. föstudag, að „bæta skuli lögbrjóti upp forsendubrest sem varð til vegna lögbrota hans“, að því er fram kemur í harðorðri tilkynningu frá samtökunum.

Samtökin vísa til þess að Íslandsbanki hafi að eigin sögn fengið 47% afslátt af öllum lánum sínum, Landsbankinn 34% afslátt af nafnvirði lána og Arion banki 24% afslátt. Krefjast samtökin þess „að nákvæmar tölur verði birtar yfir þessa afslætti, þar sem þessar tölur stemmi ekki við upplýsingar sem Seðlabankinn birtir“.

Mun leiða til fjöldagjaldþrota

Líta samtökin svo á að fái túlkunin að standa muni það leiða til fjöldagjaldþrota einstaklinga og heimila, nú þegar 40% heimila eigi erfitt með að ná endum saman um mánaðarmót. Við flutning „lánasafna heimilanna frá gjaldþrota fjármálakerfinu til hins ríkisverndaða“ hafi hið ríkisverndaða fengið „um 480 milljarða kr. afslátt af lánum heimilanna“.

Samtökin spyrja hvað þoli ekki dagsljósið.

„Eða hvaða leynisamningar voru gerðir um uppgjör við lánadrottna? Samtökin furða sig líka á því, að stjórnvöldum sé meira annt um afkomu örfárra fjármálafyrirtækja, sem flest eru byggð á rústum fyrirtækja sem settu hagkerfið á hliðina, en afkomu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu sem eru fórnarlömb stærstu glæpa Íslandssögunnar.“

Skjóta föstum skotum

Samtökin fara hörðum orðum um túlkun héráðsdóms með vísan til laga um samningsgerð. Í inngangi tilkynningarinnar segir:

„Dómarinn fríar lögbrjótinn frá því að taka ábyrgð á lögbroti sínu og í reynd verðlaunar hann, ef dómurinn verður fordæmisgefandi fyrir gengistryggð húsnæðislán. Samtökin telja einnig að dómurinn gangi gegn c-lið 36. gr. laga nr. 7/ 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, en í 2. mgr. segir:

            Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.“

Með hliðsjón af þessu telja samtökin „einsýnt að það stríði gegn góðum viðskiptaháttum að vera með ólögleg ákvæði í lánasamningi“. Þá „telja samtökin ekkert því til fyrirstöðu að efna samninginn án gengistryggingarákvæðisins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert