Öskjuleið ófær vegna vatnavaxta

Gríðarlegir vatnavextir eru í Jökulsá á Fjöllum.
Gríðarlegir vatnavextir eru í Jökulsá á Fjöllum. Rax / Ragnar Axelsson

Leiðin í Öskju er ófær vegna mikilla vatnavaxta í Jökulsá á Fjöllum.  Gunnar Bóasson, verkstjóri hjá Vegagerðinni á Húsavík, segir gríðarlega mikið vatn í ánni og á vaði yfir Lindá, sem er við venjulegar aðstæður 30-40 cm djúpt, mælist núna 100 cm djúpt vatn.

Ástæðan fyrir þessum miklu vatnavöxtum er að mjög heitt hefur verið í veðri og því er mikil bráðnun. Mest er vatnið síðdegis eftir að sólin hefur skinið á jöklana allan daginn.

Gunnar sagði að mikill vöxtur væri líka í Kreppu. Vatn væri farið að renna yfir veginn við Upptyppinga. Jökla væri einnig farin að brjóta sér leið inn í Herðubreiðulindir. Hann sagði menn hafa áhyggjur af því sem væri að gerast þar. Í vor hefði verið ýtt upp um 700 metra löngum garði til að varna því að áin næði að flæða um allt, en óttast væri að hann myndi láta undan í þessum látum.

Margir ferðamenn leggja leið sína inn í Öskju á hverju sumri. Gunnar sagði að það þýddi ekkert fyrir að fólk að reyna að fara þessa leið meðan áin væri í þessum ham. Hann sagði að búast mætti við áframhaldandi vatnavöxtum meðan svona heitt væri í veðri.

mbl.is

Bloggað um fréttina