Ríkisstjórnarsamstarfið ekki í hættu

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fyrir utan stjórnarráðið í dag.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fyrir utan stjórnarráðið í dag. mbl.is/Jón Pétur

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnarsamstarfið sé ekki í hættu vegna Magma-málsins. „Við ætlum að leysa þetta mál eins og önnur, og erum að vinna í því. Munum halda því áfram.“

Steingrímur vildi lítið tjá sig um málið við fréttamenn að loknum fundi í stjórnarráðinu, sem m.a. forsætisráðherra og viðskiptaráðherra sátu.

„Það er ekki heppilegt, held ég, að við séum að úttala okkur mikið í fjölmiðlum frekar en orðið er, fyrr en að við erum komin að landi með það sem við erum að vinna með. Þetta var góður fundur, og ráðherrahópur og fulltrúar frá þingflokkunum sitja nú saman yfir þessu verkefni.“

Steingrímur segir að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að finna lausn á málinu.

„Ég tel að þessu hafi miðað vel. Þetta er margþætt mál, þannig að við erum að skoða bæði það sérstaklega, en líka heildarsamhengið. Lagaumhverfið hér á sviði orkumála og hvernig við tryggjum opinbert eignarhald og almannahagsmuni í þessum málum almennt. Það er viðfangsefni þessarar ríkisstjórnar og hefur verið frá byrjun, eins og lesa má um í stjórnarsáttmálanum. Við ætlum engan afslátt að veita af því. Við ætlum að reyna að lenda þessu máli, sem og öðrum, þannig að við tryggjum forræði okkar sjálfra í þessum mikilvæga málaflokki og almannahagsmuni,“ segir Steingrímur.

Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig nánar um efnisatriði málsins.
mbl.is