Kirkjunni gert að spara um 9%

Kirkjan þarf að spara í rekstri.
Kirkjan þarf að spara í rekstri. mbl.is/Júlíus

Fækkun prófastsdæma og sala fasteigna er meðal aðgerða sem aukakirkjuþing telur koma til greina til að spara í rekstri kirkjunnar, en kirkjan stendur frammi fyrir kröfu ríkisvaldsins um 9% niðurskurð. Kirkjan vill að miðað verði við 5% niðurskurð.

Á aukakirkjuþingi í Grensáskirkju dag var samþykkt ályktun um að fela kirkjuráði ásamt þriggja manna nefnd að ganga til samninga við ríkisvaldið um niðurskurðarkröfu ríkisins fyrir árið 2011.


Í ályktuninni segir að þjóðkirkjan sé sjálfstæður lögaðili og grundvelli fjárhagslegra samskipta ríkis og kirkju verði ekki raskað nema með gagnkvæmum samningum sem bæði kirkjuþing og alþingi samþykkja. Þingið vill að í viðræðum við ríkisvaldið verði leitast við að samningsbundið og lögfest endurgjald ríkisins til þjóðkirkjunnar samkvæmt samkomulagi um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 og samningi um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar, dags. 4. september 1998, skerðist ekki meira en um 5% árið 2011 miðað við greiðslur úr ríkissjóði árið 2010. 

Samþykki þjóðkirkjunnar á ofangreindri 5% skerðingu verði háð því að fjárhæð sóknargjalda árið 2011 breytist ekki frá árinu 2010 og verði 767 krónur á mánuði á hvern gjaldanda 16 ára og eldri.

Aukakirkjuþing 2010 felur kirkjuráði að halda áfram vinnu við aðgerðaáætlun vegna niðurskurðarkröfu ríkisins á fjárlagalið Biskups Íslands 2011, þar sem tekið verið mið af umræðum á þinginu. Þriggja manna nefnd sem kjörin var af aukakirkjuþingi 2010 vinni með kirkjuráði að útfærslu áætlunarinnar í samræmi við niðurstöðu samninga við ríkisvaldið. Sparnaðaráætlunin komi í heild til umfjöllunar á kirkjuþingi í haust. Meðal þeirra atriða sem verða til skoðunar eru:

1. Endurskipulag prestsþjónustunnar og stofnana þjóðkirkjunnar.
2. Starfshlutfall starfsmanna Biskupsstofu og stofnana kirkjunnar lækki og/eða starfsfólki fækki.
3. Námsleyfi verði 10 mánuðir árið 2011 í stað 36 mánaða árið 2009.
4. Fækkun prófastsdæma
5. Almennur 10% sparnaður í rekstri embættis biskups Íslands. 
6. Sala fasteigna. 
7. Framlag Jöfnunarsjóðs sókna og kirkjumálasjóðs til prestsþjónustu, rekstrar og stofnkostnaðar. 
8. Tímabundin lántaka. 
9. Tekjuöflun með þjónustusamningum.
10. Efling sjálfboðastarfs í þjóðkirkjunni.

mbl.is