Hjólreiðagarður opnaður í Skálafelli

Skálafell verður héðan í frá ekki bara notað sem skíðabrekka.
Skálafell verður héðan í frá ekki bara notað sem skíðabrekka. Brynjar Gauti

Fyrsti alhliða hjólreiðagarðurinn á Íslandi verður opnaður í dag. Garðurinn er í Skálafelli. Þar er lengsta stólalyfta landsins sem er notuð til að flytja hjólreiðamenn og hjól upp hlíðina. Þaðan liggur þriggja kílómetra hjólabraut sem er við allra hæfi, nema kannski þerra allra yngstu, eins og segir í tilkynningu frá staðarhöldurum.

Opið verður allar helgar í ágúst og september frá klukkan tólf á hádegi til fimm. Segir ennfremur í tilkynningunni, að vonast er til þess að tilraunin heppnist svo vel og njóta slíkra vinsælda að framhald verði að verkefninu um ókomin ár. „Þá er hægt að ganga enn lengra, gera fleiri tegundir brauta og hjólreiðastíga frá Skálafelli, halda þar mót, vera með hjólaviðgerðir og hjólaleigur svo eitthvað sé nefnt.“
 
Dagskrá opnunardagsins er þannig háttað að keppt verður um Skálafellsbikarinn í hjólabruni og BMX-drullustökkskeppni. Þá verða allar helstu hjólreiðaverslanir landsins með kynningu á hjólum og búnaði á svæðinu og loks verður grillað og spilað fyrir gesti.

Það eru Icebike, ride.is, ÍTR og Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins sem standa að þessu framtaki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert