Fréttaskýring: Sjá ekki ástæðu til að breyta lögunum

Stormur KE 1, en skipið er í eigu Storms sem …
Stormur KE 1, en skipið er í eigu Storms sem er að hluta til í kínverskri eigu. mbl.is/Alfons

Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, segist ekki sjá ástæðu til að þrengja lög um eignarhald útlendinga að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. „Þessi lög hafa ekki truflað okkur,“ segir hann.

Samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sem sett voru árið 1991, mega útlendingar eiga allt að 25% í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Fyrirtæki sem er óbeint í eigu útlendinga má eiga 49,9% í sjávarútvegsfyrirtæki.

„Við erum ekki á móti erlendu eignarhaldi í sjávarútvegi, en það verður að vera innan skynsamlegra marka. Reglurnar eins og þær eru núna hafa ekkert verið að þvælast fyrir mönnum. Ég held að þær séu ágætar eins og þær eru. Það er þá tryggt að menn hafi yfirráð yfir sjávarútvegsfyrirtækjunum hér heima,“ sagði Adolf.

Allt galopið ef við göngum í ESB

Adolf sagði að eignarhald í sjávarútvegi verði að sjálfsögðu stórt mál í viðræðum um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann sagðist óttast að í þeim viðræðum verði erfitt að komast framhjá reglu ESB um frjálst flæði fjármagns. „Afstaða útgerðarmanna til Evrópusambandsins endurspeglast m.a. af því að við gerum okkur grein fyrir að fjórfrelsið svokallaða er ekki umsemjanlegt. Við inngöngu í Evrópusambandið verðum við því að galopna eignarhald á íslenskum fyrirtækjum, þar með talið sjávarútvegi.“

Málið tengdist einnig starfi nefndar sem er að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða. Þar er m.a. tekist á um hverjir eigi auðlindir hafsins. Samkvæmt lögunum er fiskurinn í sjónum sameign íslensku þjóðarinnar, en þetta sameignarhugtak er hins vegar ekki skilgreint nánar í íslenskum lögum.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa fjárfest í sjávarútvegsfyrirtækjum erlendis, t.d. í Þýskalandi, Bretlandi, Færeyjum og Póllandi. Þar gilda ekki sömu takmarkanir á fjárfestingum og hér á landi. Eitt stærsta útgerðarfélag landsins, Samherji, er t.d. með meira en helming starfsemi sinnar erlendis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »