Ekki kappsmál að vera ráðherra

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra. mbl.is6

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að það sé sér ekki kappsmál að vera ráðherra. Hann segist ekki reikna með að gert sé ráð fyrir sér þegar breytingar verði gerðar á ráðherraskipan síðar á kjörtímabilinu.

Gylfi segist ekki telja að hann hafi afvegaleitt þingið þegar hann svaraði fyrirspurn frá Ragnheiði Ríkharðsdóttur, alþingismanni, um lögmæti myntkörfulána, en Gylfi átti í gær fund með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra þar sem þau ræddu um þá gagnrýni sem beinst hefur að Gylfa síðustu daga.

Ræddi ekki í smáatriðum um réttarágreininginn

Alvarlegasta gagnrýnin sem beinst hefur að Gylfa snýr að því að hann hafi afvegaleitt þingið þegar hann svaraði fyrirspurn um lögmæti myntkörfulána.

„Í þessari umræðu í þinginu var ýmist talað um myntkörfulán, erlend lán eða lán í erlendri mynt. Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði mig um myntkörfulán. Mitt svar er í tveimur þáttum, þ.e.a.s. annars vegar bendi ég á, sem er í raun og veru enn óumdeilt, að lán í erlendri mynt teljast örugglega lögleg. Ég segi síðan að það sé uppi réttarágreiningur og úr honum verði að skera fyrir dómstólum. Þetta er allt saman satt og rétt.

Það sem ég hefði hins vegar gjarnan, eftir á að hyggja, viljað hafa gert og hefði án efa gert í lengra svari, var að lýsa því í hverju þessi réttarágreiningur var falinn. Hann fólst í sjálfu sér ekki í því hvort myntkörfulán væru ólögleg heldur fólst hann í því hvort að þessi lán væru í eðli sínu lán í erlendri mynt eða hvort þau væru gengistryggð lán í krónum. Þetta var ekkert leyndarmál á þessum tíma og ég ræddi um þetta opinberlega í fyrra líka. Ég reyndi því ekki að halda því leyndu í hverju þessi lagalegi ágreiningur væri fólginn þó að ég hafi ekki rakið hann í smáatriðum í tveggja mínútna þingræðu.

Það var því alls ekki ætlun mín að afvegaleiða Ragnheiði eða þingheim, en vissulega skýrði ég ekki allt málið í þessu stutta svari, en það var ekki vegna þess að vilji minn stæði ekki til þess að upplýsa það eftir bestu getu.

Það má benda á að þegar þessi umræða er í þinginu er ég nýbúinn að fá í hendurnar minnisblað sem var unnið innan ráðuneytisins þar sem niðurstaðan er einmitt þessi, að ekki leiki vafi á því að lán í erlendri mynt séu lögleg, en það sé spurning um skjalagerð og annað sem þurfi að fara yfir til að skera úr um það hvort hin ýmsu myntkörfulán sem voru veitt á undanförnum árum teljast í raun lán í erlendri mynt eða gengistryggð krónulán.“

Gylfi benti á að á þessum tíma hafi menn ekki vitað allt um þetta álitamál. Það sé ekki enn búið að skera úr réttarágreiningi um allt sem tengist myntkörfulánum.

„Þetta skýrðist eitthvað með dómi Hæstaréttar í júní og mun fyrirsjáanlega skýrast frekar þegar fer að líða á veturinn með fleiri dómum. En meira vissu menn ekki vorið 2009 og ég reyndi að koma öllu því sem ég vissi um lögmæti þessara lána á þessum tíma til skila. Hafi einhver misskilið mig þá var það ekki ætlun mín og ég hlýt að biðjast velvirðingar á því. Það var allavega ekki ætlun mín að blekkja einn né neinn.“

Ekki leyndur upplýsingum

Gylfi sagði að sér þætti mjög ósanngjarnt að því skuli hafa verið haldið fram að hann hafi verið leyndur upplýsingum af starfsmönnum viðskiptaráðuneytisins.

„Þegar ég horfi til baka fæ ég ekki séð að neinu hafi verið haldið frá mér með óeðlilegum hætti. Ég fæ ekki betur séð en ég hafi fengið allar þær upplýsingar sem ég þurfti á að halda. Þó að ég hafi ekki séð öll skjöl þá er það einfaldlega þannig í ráðaneytavinnu að ráðherrar fá yfirleitt samantektir og ágrip starfsmanna. Það var gert í þessu tilfelli. Mér var sagt frá niðurstöðu þessa LEX álits og svo síðar skoðunum Sigríðar Logadóttur [lögfræðings Seðlabankans] á málinu. Það var því ekki þannig að ég væri óupplýstur og ég fæ alls ekki séð að ráðuneytisstjórinn eða aðrir starfsmenn hafi brugðist þeirri skyldu sinni að upplýsa ráðherra.“

Gylfi var spurður nánar hvernig viðskiptaráðuneytið hefði staðið að því að afla upplýsinga um lögmæti gengistrygginga lána.

„Það er þannig að vorið 2009 óskar ráðuneytið eftir upplýsingum frá ýmsum stofnunum, þar á meðal Seðlabankanum, vegna vinnslu á lögfræðiáliti. Það kemur nú eitthvað lítið út úr því, nema að það kom þetta skjal og fylgigögn frá Seðlabankanum, í trúnaði. Álit Lex er eitt af því sem lögfræðingur ráðuneytisins notar til að glöggva sig á málinu. Þegar það er kynnt fyrir mér þá er stuttlega vikið að því að niðurstaða innanhúslögfræðingsins sé í samræmi við niðurstöðu LEX. Þessu var sem sagt ekki haldið frá mér. Síðan um sumarið, líklega í ágúst, er einhver umræða um skoðanir Sigríðar Logadóttur og þannig að ég fékk að vita af þeim líka. Ég lít svo á að ég hafi fengið allar upplýsingar sem ég þurfti og get engan veginn tekið undir að þar hafi verið einhver pottur brotinn.“

Er hugsi yfir því hvort eitthvað hefði mátt gera öðruvísi

Gylfi sagðist því vísa því á bug að eitthvað sé að vinnubrögðum innan viðskiptaráðuneytisins. „Auðvitað er ég hugsi yfir því hvort eitthvað hefði mátt gera öðruvísi; hvort að ráðuneytið hefði átt að þrýsta á Seðlabankann að birta meira og eins hvort bankinn hefði átt að gera það að eigin frumkvæði. Ég sé hins vegar ekkert að þeim vinnubrögðum innan ráðuneytisins að taka saman þetta lögfræðiálit og upplýsa mig.“

Í umræðu síðustu daga hefur því verið haldið fram að lögfræðiálit LEX og Seðlabankans hefðu getað haft áhrif á hvernig eignum var skipt á milli nýju og gömlu bankanna.

„Ég tel sjálfsagt að fara yfir það,“ sagði Gylfi. „En í fljótu bragði fæ ég ekki séð að það hafi breytt miklu. Ég sé ekki að neinir hagsmunir hafi raskast, hvorki hagsmunir ríkisins né kröfuhafa. Mér finnst hins vegar sjálfsagt að fara yfir þetta. Það hefur ekki verið gert að öllu leyti.“

Kem ekki að samningaborði um ráðherraskipan

Gylfi sagði að á fundinum með Jóhönnu og Steingrími hefði ekki verið rætt um hugsanlega afsögn. „Ég hef margoft sagt að það sé mér ekki mikið kappsmál að vera ráðherra, en ég hef ekki séð ástæðu til að segja af mér vegna þessa máls.“

Formenn stjórnarflokkanna hafa áður lýst því yfir að það komi til greina að gera breytingar á ráðherraskipan á kjörtímabilinu. Gylfi vísaði á forystumenn ríkisstjórnarinnar þegar hann var spurður hvenær hann gerði ráð fyrir að gerðar verði breytingar á ríkisstjórninni.

„Ég kem ekki að samningaborðinu þegar stjórnarflokkarnir ræða um breytingar á ráðuneytum og mönnun þeirra. Ég geri nú ekkert frekar ráð fyrir því að það verði gert ráð fyrir mér eftir þær breytingar. Það er sjálfstætt mál og kemur í sjálfu sér ekki inn á þetta mál.“


mbl.is