Helgi Þór forstjóri OR

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.

Á fundi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur nú í kvöld var staðfest samkomulag stjórnarformanns við Hjörleif B. Kvaran, forstjóra Orkuveitunnar, frá því fyrr í dag um starfslok forstjóra. Hjörleifur lætur af störfum þegar í stað.

Samkomulagið var samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum en þrír sátu hjá. Í bókun segir, að Orkuveita Reykjavíkur standi á tímamótum og staða fyrirtækisins kalli á umfangsmiklar breytingar í áherslum, rekstri og stjórnun.

Jafnframt samþykkti stjórnin að stjórnarformaður hæfi undirbúning að ráðningu nýs forstjóra, meðal annars með gerð starfslýsingar og auglýsingar um starfið.

Þá var samþykkt að veita stjórnarformanni heimild til að ganga frá tímabundinni ráðningu Helga Þórs Ingasonar, verkfræðings, í starf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, enda verði samningur við hann lagður fyrir stjórn til staðfestingar. Samningurinn skal bundinn því skilyrði að Helgi Þór verði ekki ráðinn framtíðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.

Helgi Þór Ingason er 45 ára, dósent í véla- og iðnaðarverkfræði og forstöðumaður meistaranáms í verkefnastjórnum í Háskóla Íslands.
Hann lauk M.Sc. prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1991, doktorsprófi í framleiðsluferlum í stóriðju frá tækniháskólanum í Þrándheimi 1994 og SCPM prófi í verkefnastjórnun frá Stanfordháskóla 2009. Hann hefur hlotið alþjóðlega vottun  sem verkefnisstjóri.

Helgi Þór hefur starfað sem verkefnisstjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Íslenska járnblendifélagsins og gæðastjóri verkfræðistofunnar Línuhönnunar, nú Eflu verkfræðistofu. Hann er annar tveggja frumkvöðla Als álvinnslu hf. og hefur verið stjórnarformaður félagsins og áður framkvæmdastjóri.
 
Helgi Þór Ingason.
Helgi Þór Ingason.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert