Nefnd mun rannsaka lífeyrissjóðina

Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða.
Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða.

Sérstök rannsóknarnefnd, sem skipuð er af ríkissáttasemjara, mun á næstunni gera úttekt á starfssemi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008. Skoðuð verður fjárfestingastefna lífeyrissjóðanna, ákvarðanataka og lagalegt umhverfi þeirra.

Landssamband lífeyrissjóða óskaði sjálft eftir því í júní að skipa þriggja manna nefnd „óháðra, óvilhallra og hæfra einstaklinga" til að fara með rannsóknina. Ríkissáttasemjara var falið að tilnefna þrjá einstaklinga í nefndina og hafa þeir nú verið skipaðir. Hrafn Bragason lögfræðingur og fyrrverandi hæstaréttardómari verður formaður nefndarinnar, en auk hans sitja í henni þau Guðmundur Heiðar Frímannsson, siðfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, og Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík.

Þá hefur nefndin ráðið Kristján Geir Pétursson lögfræðing sem starfsmann nefndarinnar. Gert er ráð fyrir því að nefndin ljúki störfum með útgáfu skýrslu til stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða fyrir árslok 2010.

mbl.is